Skiptastjórar þrotabús WOW air hafa fengið fjölda fyrirspurna um kaup á eignum úr þrotabúinu með það fyrir augum að nýta þær við nýjan flugrekstur. Þorsteinn Einarsson skiptastjóri segir ekkert í hendi um það og tekur fram að það sé flókið mál að stofna nýtt flugfélag.
Hæstaréttarlögmennirnir Þorsteinn og Sveinn Andri Sveinsson voru skipaðir skiptastjórar vegna gjaldþrots WOW air. Þorsteinn segir í Morgunblaðinu í dag, að fyrstu verkin séu að ná utan um eignir búsins og varðveita þær og kanna leigusamninga. Ákveðið var að tilkynna starfsfólki formlega að þrotabúið tæki ekki yfir ráðningarsamninga þess og voru stefnuvottar á ferðinni alla helgina. Þorsteinn segir að mikilvægt hafi verið að gera þetta fyrir mánaðamótin. Þá hafi tilkynning um innköllun skulda verið send til Lögbirtingablaðsins.
Varðandi sölu eigna til þeirra sem áhuga kunna að hafa á að stofna til flugrekstrar á þessum grunni bendir Þorsteinn á að WOW air hafi skilað flugrekstrarleyfi sínu áður en það varð gjaldþrota. Flugrekstrarleyfi skipti mestu máli þegar verið er að hefja flugrekstur og annaðhvort þurfi viðkomandi að vera með slíkt leyfi eða afla þess. Þá má geta þess að félagið átti engar flugvélar, heldur var með þær á leigu.
Þorsteinn bendir á að WOW hafi átt bókunarkerfi og annan hugbúnað sem mikið hafi verið kostað til. Verkefni skiptastjóra sé að gera verðmæti úr öllu sem hægt er og séu skiptastjórarnir fúsir að selja eignir. Segir hann óskandi að hægt væri að nýta þær í flugrekstur.
Fyrrverandi starfsfólk WOW air fær ekki laun nú um mánaðamótin vegna þess að félagið varð gjaldþrota og tíma tekur að sækja fjármunina til þrotabúsins eða Ábyrgðasjóðs launa. Stéttarfélög starfsfólksins hlaupa undir bagga og lánar starfsfólki hluta launanna þar til tekist hefur að innheimta kröfurnar.