„Aðkoma ríkisins þarf að vera umtalsverð“

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR. mbl.is/Hari

„Við erum alveg hörð á ákveðnum málum sem eru forsenda þess að þetta geti gengið upp. Aðkoma ríkisins þarf að vera umtalsverð,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR í samtali við mbl.is. 

Hann segir að ríkisstjórninni ætti að vera ljóst hvaða mál eru undir í því samhengi, en gaf ekkert nánar upp um þau efni, enda enn leynd yfir efni þess samkomulags um útlínur að kjarasamningi sem náðist í gærkvöldi.

Björn Snæbjörnson formaður Starfsgreinasambandsins sagði við mbl.is fyrr í morgun að rætt hefði verið um skattamál, húsnæðismál, barnabætur og fleira í því samhengi, án þess að fara út í nein smáatriði.

Vilhjálmur Birgirsson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, nefndi að sama skapi í morgun við mbl.is að það sem þyrfti frá stjórnvöldum væru meðal annars aðgerðir er lúta að verðtryggingu, vaxtalækkunum og aðgerðum til þess að lyfta skattbyrðinni af þeim tekjulægstu.

„Það er mikið undir og mikið til þess að vinna að klára þetta, en að sama skapi þá getur alveg farið til beggja í þessu. Það bara liggur fyrir, það er bara það mikið undir,“ segir Ragnar Þór, sem segir að vertíðarbragur hafi verið á vinnunni við samningaborðið undanfarið.

Hann mætti í húsakynni ríkissáttasemjara í Borgartúni laust eftir kl. 10 í morgun og sagði blaðamanni að hann ætlaði að kynna samkomulagið sem liggur fyrir um útlínur að kjarasamningi fyrir baklandi sínu í röðum verslunarmanna á fundi kl. 12. Þar þyrftu viðbrögðin að vera jákvæð, svo áfram væri haldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert