Atlantsolía er þessa dagana að taka yfir fimm sjálfsafgreiðslustöðvar fyrir eldsneyti sem Olís rak til skamms tíma undir merkjum ÓB.
Vegna kaupa Haga á Olís á síðasta ári var sá áskilnaður gerður af samkeppnisyfirvöldum að fyrirtækið seldi frá sér fimm stöðvar í Reykjavík, það er við Starengi í Grafarvogi, Kirkjustétt í Grafarholti, Knarrarvogi, Háaleitisbraut og á Esjumelum í Grundarhverfi á Kjalarnesi.
„Verkefnið er allstórt því við þurfum að skipta út öllum dælum og sjálfsölum þar sem við notumst við annan búnað en ÓB. Við þurfum því nokkrar vikur í málið, en fyrir páska ættu allar stöðvarnar að vera komnar undir rekstur Atlantsolíu,“ segir Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, í Morgunblaðinu í dag.