Markmið með sameiningu sýslumannsembætta hafa ekki náðst nema að litlum hluta, að mati Ríkisendurskoðunar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu til Alþingis, Sýslumenn – samanburður milli embætta.
Sýslumannsembættum var fækkað úr 24 í níu 1. janúar 2015. Um leið var löggæsla að fullu aðskilin frá þeim og ný lögregluembætti stofnuð. Markmiðið með sameiningu sýslumannsembætta var að efla þau og gera að miðstöð stjórnsýslu ríkisins í héraði. Þá átti breytingin að leiða til aukinnar hagkvæmni í rekstri.
Ríkisendurskoðun segir að ekki hafi tekist að efla stjórnsýslu sýslumanna með auknum verkefnum. Væntingar um slíkt virðist varla hafa verið raunhæfar. Reksturinn hefur einnig verið undir markmiðum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.