„Menn einsettu sér að ná niðurstöðu“

„Ég trúi því ekki að ríkisvaldið komi ekki með það …
„Ég trúi því ekki að ríkisvaldið komi ekki með það sem upp á vantar til þess að geta lokað samningi til svo langs tíma,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, sem situr nú á fundi með stjórnvöldum, ásamt öðrum deiluaðilum, í húsnæði ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasamband Íslands, segir að ýmislegt felist í fyrirvara um aðkomu stjórnvalda svo kjarasamningar náist í dag.  

„Það er margþætt það sem menn hafa viljað fá frá stjórnvöldum. Það er verið að tala um skattamál, húsnæðismál, barnabætur og fleira,“ segir Björn í samtali við mbl.is.

Gengið var frá yf­ir­lýs­ingu um meg­in­lín­ur kjara­samn­inga milli Sam­taka at­vinnu­lífs­ins ann­ars veg­ar og fé­laga versl­un­ar­manna og fé­laga Starfs­greina­sam­bands­ins hins veg­ar um meg­in­lín­ur kjara­samn­inga í nótt. Samningarnir, verði þeir samþykktir, standa til 1. nóvember 2022.

Fulltrúar stjórnvalda og deiluaðila sitja nú á fundi í húsakynnum ríkissáttasemjara. Eitt af forgangsatriðum, að mati Björns, er að komast að samkomulagi um að aflétta skatt­byrði á þá tekju­lægstu.

Björn segir að árangurinn sem náðist í nótt sé samspil mikillar erfiðisvinnu ýmissa hópa síðustu mánuði en fall WOW air hafi óneitanlega haft áhrif á gang kjaraviðræðna síðustu daga. „Það hafði þau áhrif að menn einsettu sér að reyna að ná niðurstöðu.“

Björn er bjartsýnn á að stjórnvöld geri það sem þarf til að ljúka kjaraviðræðum í dag. „Ég trúi því ekki að ríkisvaldið komi ekki með það sem upp á vantar til þess að geta lokað samningi til svo langs tíma sem hlýtur að vera mikið keppikefli fyrir stjórnvöld á hverjum tíma að hafa langtímasamning.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert