Mun koma þægilega á óvart

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir að ný nálgun felist …
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir að ný nálgun felist í þeim kjarasamingnum sem tókust að hluta í nótt. mbl.is/Eggert

„Við erum í miðri á, það er bara þannig,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í samtali við mbl.is.

Fulltrúar stjórnvalda og deiluaðila koma saman á fundi í húsnæði ríkissáttasemjara klukkan 9 en gengið var frá yf­ir­lýs­ingu um meg­in­lín­ur kjara­samn­inga milli Sam­taka at­vinnu­lífs­ins ann­ars veg­ar og fé­laga versl­un­ar­manna og fé­laga Starfs­greina­sam­bands­ins hins veg­ar um meg­in­lín­ur kjara­samn­inga í nótt.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í samtali við mbl.is að nú sé til mikils að vinna fyrir alla. „Svo verður bara að koma í ljós hvernig þetta gengur, ég ætla að leyfa mér að vera hóflega bjartsýnn þar til annað kemur í ljós.“ 

Kalla eftir aðgerðapakka frá stjórnvöldum

„Við erum búin að meta stöðuna ítrekað, ég held að þessar útlínur sem nú þegar liggja fyrir muni koma mörgum þægilega á óvart þótt vissulega sé það alltaf þannig í kjarasamningsgerð að menn vilja komast lengra,“ segir Vilhjálmur.

Sam­komu­lagið er gert með fyr­ir­vara um aðkomu stjórn­valda og samþykki samn­inga­nefnda. „Við búumst við ýmislegu, það er einfaldlega þannig. Við erum að kalla eftir vissum aðgerðapakka sem lýtur að íslenskum heimilum. Margt er komið en það eru atriði sem við þurfum að klára,“ segir Vilhjálmur og nefnir í því samhengi mál sem snúa að verðtryggingu, vaxtalækkunum, að aflétta skattbyrði á þá tekjulægstu og húsnæðismál.

Fall WOW air flýtti fyrir viðræðum

Vilhjálmur segir að ef allt gangi eftir muni nýir kjarasamningar fela í sér atriði sem ekki hafi sést áður í kjarasamningsgerð hér á landi. „Þetta er ný nálgun sem við munum kynna þegar að því kemur, en þetta er búið að vera gríðarlega erfitt, flókið og það hefur svo sem ekki hjálpað okkur hvernig ástandið hefur spilast síðustu vikurnar,“ segir Vilhjálmur og vísar til falls WOW air. Hann segir mikilvægt að verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur standi saman á lokaspretti samningaviðræðna.

„Það hefur alla tíð legið fyrir hjá íslenskri verkalýðshreyfingu að við gerum okkur alltaf grein fyrir okkar ábyrgð. En við köllum líka eftir ábyrgð atvinnurekenda og stjórnvalda og verslunareigenda, sveitarfélaga og annarra. Ég hef alltaf sagt það að ábyrgðin þarf að liggja hjá okkur öllum, hún getur ekki alltaf legið á herðum alþýðunnar og heimilanna.“

Vilhjálmur segir það mikið tilhlökkunarefni að kynna samninginn sem fyrir liggur. „En hann er flókinn og það þarf að kynna hann í samhengi við það sem við erum að berjast fyrir. Það eru atriði þarna sem við eigum eftir að klára og stjórnvöld verða bara að gjöra svo vel að koma að þessu, við erum að gera þetta öll saman.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert