„Þetta eru tveir vondir kostir. Ég öfunda ekki fólkið af að þurfa að taka afstöðu. Það er erfitt fyrir það að hafna boði um hlutastarf en einnig erfitt að þiggja það,“ segir Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, um ráðningarsamninga sem starfsfólki Airport Associates á Keflavíkurflugvelli eru boðnir.
Fyrirtækið sagði 315 af 400 starfsmönnum sínum upp störfum fyrir helgina í kjölfar gjaldþrots WOW air sem var langstærsti viðskiptavinur fyrirtækisins. Hafin er vinna við að bjóða aftur 205 starfsmönnum nýjan ráðningarsamning.
Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri félagsins, segir nauðsynlegt að breyta vaktatöflum og starfshlutfalli. Hann segir að með því að minnka starfshlutfall gefist kostur á að bjóða fleirum að halda starfi. „Með því viljum við minnka höggið,“ segir Sigþór í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.