Tvær athugasemdir við álit siðanefndar Alþingis um Klaustursmálið hafa komið inn á borð nefndarinnar. Sex þingmenn Miðflokksins sem fjallað er um í álitinu höfðu frest til dagsins í dag að bregðast við. Þetta staðfestir Steinunn Þóra Árnadóttir annar tveggja varaforseta Alþingis sem var falið að fjalla um málið.
Hvorki fékkst upp gefið frá hverjum athugsemdir bárust né hvort fleiri þingmenn stæðu saman á bak við hverja athugasemd. Steinunn Þóra bendir á að dagurinn sé ekki liðinni og því gætu fleiri borist.
Ekki hefur verið boðað til fundar í nefndinni. „Við eigum eftir að setjast niður og ákveða hvert framhald málsins verður,“ segir Steinunn Þóra.
Álitið lýtur að ummælum sex þingmanna á veitingastofunni Klaustri bar 20. nóvember 2018 og mögulegu broti þeirra á siðareglum fyrir alþingismenn. Í álitinu kemur meðal annars fram að samtalið sem átti sér stað og náðist á upptöku geti ekki talist einkasamtal.