„Þetta hefur verið virkilega gaman og ævinlega góð aðsókn. Á tímabili var alltaf fullt út úr dyrum og við þurftum að vísa fólki frá vegna plássleysis. Svo kom að því að við slógum met sem mest sótti einstaki viðburður í sögu hússins, þá mættu um 200 manns,“ segir Gunnar Hersveinn, heimspekingur og rithöfundur, sem staðið hefur fyrir heimspekikaffi í Gerðubergi undanfarna átta vetur.
Í lok mars var afmæli þegar fimmtugasta heimspekikaffi Gunnars og Borgarbókasafnsins var haldið, það síðasta á þessum vetri. Gunnar segir að í heimspekikaffi sé ævinlega fjallað um lífsgildin, markmiðið sé að finna einhverja þætti sem eru eftirsóknarverðir í lífinu.
„Ég hef fengið með mér framúrskarandi fólk í framsöguna og umræðuefnin hafa m.a. verið hamingja og nægjusemi, hjálpsemi og vinátta, kynjafræði og friðarmenning, svo fátt eitt sé nefnt. Í síðasta heimspekikaffinu fékk ég Auði Önnu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Landverndar, til liðs við mig, og við töluðum um hamingju næstu kynslóða, en það hefur oft verið fjallað um hamingjuna út frá ýmsum sjónarhornum á þessum kvöldum. Við eigum samtal fyrst, ég og sá aðili sem er með mér hverju sinni, en síðan erum við með umræðuspurningar til gesta sem mæta. Við reynum að lokka visku hópsins fram. Allir tala saman við borðin og ég fer á milli og heyri í fólki.“
Sjá samtal við Gunnar Hersvein í heild í Morgunblaðinu í dag.