Lokasamningalotan hafin

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, mættur í húsakynni ríkissáttasemjara. Hann …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, mættur í húsakynni ríkissáttasemjara. Hann segir það hafa verið skynsamlegt hjá deiluaðilum að gera hlé á viðræðum í nótt. mbl.is/Eggert

„Eigum við ekki að segja að ég sé þreyttur en alltaf brattur?“ sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og kvaðst hafa náð ágætum svefni í nótt. Mbl.is náði í Ragnar Þór áður en umræður hófust á ný í húsakynnum ríkissáttasemjara núna klukkan átta í morgun, en aðilar vinnu­markaðar­ins ákváðu á tólfta tím­an­um í gærkvöldi, í sam­ráði við rík­is­sátta­semj­ara, að samn­ingsaðilar myndu hvíla sig frá fund­ar­höld­um fram til morguns.

„Það hefur ekkert breyst frá því við tókum okkur pásu í gær. Þetta er tímafrekt ferli sem fer í svona textayfirlestur,“ sagði Ragnar Þór og kvað verið að fínpússa lokaatriði samningsins. „Það eru þó reyndar einhverjir sérsamningar eftir. Þessi meginlína hún er þó að skýrast og það er ekkert, alla vega hjá okkur verslunarmönnum, sem stendur út af borðinu, þannig að það ógni þessu samkomulagi.“

Spurður út í frestun á fundarboði blaðamannafundar sem bæði ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins höfðu rætt um að halda í gær, segir Ragnar Þór samningsaðila einfaldlega hafa ætlað sér um of.  

Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, mættur á fund hjá ríkissáttasasemjara nú …
Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, mættur á fund hjá ríkissáttasasemjara nú í morgun. mbl.is/Eggert

„Þetta var bara of naumur tími til að kynna niðurstöðuna og við tókum þá ákvörðun, að í stað þess að kynna eitthvert rammasamkomulag án þess að vera búin að skrifa undir var tekin ákvörðun um að klára þetta bara með undirskrift og kynna þetta eftir það.“

Kveðst Ragnar Þór þeirrar skoðunar að það hafi verið skynsamleg ákvörðun. „Það stóð ekki á stjórnvöldum þarna. Heldur á því að við sem þarna vorum við samningaborðið töldum skynsamlegra að fara frekar inn í nóttina og klára þetta.“ Upp úr miðnætti hafi síðan, í ljósi þess að menn höfðu ekki fengið nema 3-4 tíma svefn nóttina áður, verið ákveðið að fara heim að sofa „og koma svo bara brattur til leiks eftir nóttina og klára þetta“.

Einhugur í stjórn VR

„Ég held að stemmningin hafi heldur ekki breyst,“ bætir Ragnar Þór við.

Stéttarfélögin hafi líka verið að kynna þetta fyrir samninganefndum sínum í gær og segir Ragnar Þór einhug í stjórn VR að fara þá leið sem nú sé í undirbúningi. „Ég held að þetta sé að fæðast,“ segir hann.

 „Það var bara of mikið að fara kynna þetta ofan í allt sem var í gangi. Við ætluðum okkur bara of mikið og það skiptir litlu þótt einum blaðamannafundi sé frestað.“

Spurður hvort vöffluilm muni leggja um húsakynni ríkissáttasemjara síðdegis svarar Ragnar Þór: „Ég veit ekki með vöfflurnar en ég á von á að það verði blaðmannafundur síðar í dag.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert