Tapar líklega 4 milljörðum á WOW air

Skúli Mogensen.
Skúli Mogensen. mbl.is/Eggert

Skúli Mo­gensen, stofn­andi WOW air, hef­ur sent frá sér til­kynn­ingu vegna gjaldþrots flug­fé­lags­ins. Þar seg­ist hann bera mikla ábyrgð á því hvernig fór og hann hafi hvorki skor­ast und­an henni né reynt að koma sök­inni á aðra.

„Staðreynd­in er sú að ég trúði því og trúi enn að þetta ein­staka flug­fé­lag sem við hjá WOW air byggðum upp hafi brotið blað í ís­lenskri flug­sögu með því að bjóða far­gjöld og áfangastaði sem höfðu aldrei sést áður á glæ­nýj­um Air­bus-flug­vél­um,“ seg­ir hann í yf­ir­lýs­ing­unni.

Hann seg­ir að lággjalda­mód­elið sem var lagt upp með í byrj­un hafi virkað vel og átt full­an rétt á sér en nefn­ir einnig að þau hafi farið fram úr sér og að eft­ir á að hyggja vildi hann óska þess að ým­is­legt hefði verið gert öðru­vísi.

Í til­kynn­ing­unni fer hann svo nán­ar yfir það sem hefði mátt gera öðru­vísi og nefn­ir m.a. að óhemju dýrt og flókið hafi verið að fljúga til fjar­læg­ari staða eins og Los Ang­eles og San Francisco.

Hann nefn­ir einnig að þau hafi fjar­lægst lággjalda­stefn­una sem hafi reynst dýr­keypt. Auk þess seg­ir hann að flug­fé­lagið hefið átt að sækja fjár­magn byggt á ár­angr­in­um sem náðist 2015 og 2016 til að styrkja eig­in­fjár­grunn fé­lags­ins og efla það veru­lega áður en áfram yrði haldið.

„Það er auðvelt að vera vit­ur eft­ir á og á þeim tíma þegar ákv­arðanir voru tekn­ar um stækk­un og stefnu­breyt­ingu WOW air var það aug­ljós­lega gert í þeirri trú að það væri best fyr­ir fé­lagið og að með þessu móti gæt­um við eflt WOW air enn frek­ar til langs tíma litið,“ seg­ir hann.

Veðsetti hús og jörð í Hval­f­irði

Skúli seg­ist hafa fjár­fest í WOW air fyr­ir um 4 millj­arða króna allt frá stofn­un þess og ljóst sé að hann fái lítið sem ekk­ert af því til baka.

Hann seg­ist hafa lánað WOW air 600 millj­ón­ir króna í janú­ar 2018 eft­ir að fall Kortaþjón­ust­unn­ar setti strik í reikn­ing­inn hjá flug­fé­lag­inu.

Einnig fjár­festi hann aft­ur fyr­ir um 750 millj­ón­ir króna í skulda­bréfa­út­boði í sept­em­ber 2018. Til að geta það fór hann í per­sónu­lega ábyrgð og veðsetti húsið sitt og jörð í Hval­f­irði.

„Ég mun að öll­um lík­ind­um þurfa að selja hvort tveggja til að standa und­ir mín­um per­sónu­leg­um skuld­bind­ing­um og ábyrgðum vegna WOW air. Ég hef því lagt allt und­ir í þess­ari veg­ferð.“

Átti enga aðkomu að tveim­ur leigu­vél­um

Skúli seg­ist einnig ekki hafa haft neina aðkomu að tveim­ur flug­vél­um sem WOW var með í leigu og hef­ur verið fjallað um und­an­farið. „Umræðan snýr að því að skráður eig­andi vél­anna er með fé­lög á Caym­an-eyj­um að nafni Sog og Tungna. Hvorki ég né nein fé­lög tengd mér hafa nokkuð með þessi fé­lög að gera en eig­andi þess­ara flug­véla er Gos­hawk sem er stórt flug­véla­leigu­fyr­ir­tæki með starfstöðvar í Dublin og Hong Kong.“

Tekj­ur upp á hundruð millj­arða

Skúli seg­ir óhemju erfitt og sorg­legt að horfa á eft­ir WOW air því hann hafi elskað fé­lagið, fólkið og allt sem það sem flug­fé­lagið stóð fyr­ir.  „Við flutt­um yfir 10 millj­ón­ir farþega frá upp­hafi og með okk­ur komu yfir tvær millj­ón­ir ferðamanna til Íslands. WOW air skapaði þúsund­ir starfa bæði beint hjá fé­lag­inu og fyr­ir ferðaþjón­ust­una í heild sinni. Það ligg­ur fyr­ir að bein­ar og óbein­ar tekj­ur rík­is­sjóðs af starf­semi WOW air nema hundruðum millj­arða und­an­far­in ár," seg­ir hann.

„Við vor­um á góðri leið með að klára viðsnún­ing fé­lags­ins og að koma okk­ur aft­ur í sama bún­ing og við vor­um í á ár­un­um 2015 og 2016 en því miður gafst ekki tími til að klára fjár­mögn­un fé­lags­ins.  Við reynd­um allt sem við mögu­lega gát­um til að forða fé­lag­inu frá gjaldþroti en það tókst því miður ekki.“

Skúli skrif­ar í lok­in:

„Ég mun þurfa að lifa með þeim ákvörðunum sem ég tók alla tíð en það sem mér þykir verst er að hafa brugðist öllu því fólki sem stóð með mér og barðist fram í rauðan dauðann við að bjarga fé­lag­inu. Þetta var og er ein­stak­ur hóp­ur sem var heiður og for­rétt­indi að fá að vinna með. Þrátt fyr­ir hvernig fór mun ég ávallt vera stolt­ur af því sem við gerðum. Ég vona inni­lega að allt það sem við lögðum í fé­lagið og sú mikla reynsla og þekk­ing sem hef­ur orðið fari ekki for­görðum. Ég vona líka að þrátt fyr­ir hvernig fór að þetta æv­in­týri okk­ar letji ekki aðra frum­kvöðla frá því að láta drauma sína ræt­ast.“

Til­kynn­ing­in í heild sinni:

„Fall WOW air

Það er eðli­legt og viðbúið að það verði fjallað mikið um WOW air næstu miss­er­in, mik­inn vöxt og fall fé­lags­ins og aðdrag­and­ann að því.  

Sem eig­andi og for­stjóri WOW air ber ég mikla ábyrgð á því hvernig fór.  Ég hef aldrei skorist und­an þeirri ábyrgð né reynt að koma sök­inni á aðra. Staðreynd­in er sú að ég trúði því og trúi enn að þetta ein­staka flug­fé­lag sem við hjá WOW air byggðum upp hafi brotið blað í ís­lenskri flug­sögu með því að bjóða far­gjöld og áfangastaði sem höfðu aldrei sést áður á glæ­nýj­um Air­bus flug­vél­um. Á ár­un­um 2015 og 2016 óx og dafnaði WOW air mun hraðar og bet­ur en nokk­ur hafði trú á og skilaði fé­lagið um 5 millj­örðum í hagnað. Lággjalda­mód­elið eins og lagt var upp með í byrj­un virkaði vel og á full­an rétt á sér á Íslandi líkt og ann­ars staðar.

En þessi mikla vel­gengni átti líka sinn þátt í því að við fór­um fram úr sjálf­um okk­ur og eft­ir á að hyggja vildi maður óska þess að við hefðum gert ým­is­legt öðru­vísi.

Í fyrsta lagi var ákveðið að fljúga til fjar­lægðari staða og taka í notk­un 350 sæta Air­bus A330 breiðþotur. Þar með gát­um við hafið flug til fjar­lægðari staða eins og Los Ang­eles, San Francisco, Miami, Dallas og Del­hi með það að mark­miði að gera Ísland að alþjóðlegri tengistöð á milli Asíu, Norður-Am­er­íku og Evr­ópu, ekki ósvipað og Finna­ir hef­ur gert með góðum ár­angri í Hels­inki. Þetta var há­leit sýn og mark­mið sem við höfðum fulla trú á en þetta reynd­ist því miður óhemju dýrt og flókið verk­efni og við van­mát­um hversu al­var­leg­ar af­leiðing­ar breiðþot­urn­ar myndu hafa á rekst­ur fé­lags­ins, sér­stak­lega eft­ir að olíu­verð fór að hækka hratt á haust­mánuðum 2018.

Í öðru lagi þá fjar­lægðumst við lággjalda­stefn­una og fór­um að bæta við viðskiptafar­rými og fleiri þjón­ust­um sem eiga alls ekki heima í lággjalda­mód­el­inu. Þetta jók flækj­u­stigið enn frek­ar og und­ir­liggj­andi kostnað fé­lags­ins. Þetta reynd­ist okk­ur dýr­keypt og eft­ir á að hyggja hefðum við átt að halda fast í það að vera hrein­ræktað lággjalda­fé­lag.

Í þriðja lagi hefðum við átt að sækja fjár­magn byggt á þeim góða ár­angri sem við náðum 2015 og 2016 til að styrkja eig­in­fjár­grunn fé­lags­ins og efla fé­lagið veru­lega áður en áfram yrði haldið. 

Síðast en ekki síst hef­ur ytra um­hverfi flug­fé­laga verið mjög erfitt und­an­farið ár og sjald­an hafa fleiri flug­fé­lög farið í þrot eins og und­an­farna mánuði. Þar veg­ur hækk­andi olíu­verð þungt en það fór í hæstu hæðir skömmu eft­ir skulda­bréfa­út­boðið okk­ar sem hafði veru­leg nei­kvæð áhrif á all­ar okk­ar áætlan­ir. Jafn­framt hafði gjaldþrot Pri­mera Air skömmu eft­ir að við kláruðum skulda­bréfa­út­boðið okk­ar veru­lega nei­kvæð áhrif. Með falli Pri­mera Air breytt­ist viðhorfið hjá svo til öll­um okk­ar birgj­um og fóru birgjar og færslu­hirðar fram á meiri trygg­ing­ar og staðgreiðslu­fyr­ir­komu­lag í öll­um sín­um viðskipt­um við WOW air. Þetta hafði gríðarlega mikl­ar af­leiðing­ar í för með sér á mjög skömm­um tíma. Við höfðum reiknað með því að fá betri fyr­ir­greiðslu í kjöl­far skulda­bréfa­út­boðsins en vegna falls annarra flug­fé­laga, mik­ils og slæms um­tals um flug­geir­ann í heild sinni í aðdrag­anda útboðsins versnuðu kjör okk­ar í kjöl­farið á útboðinu þvert á okk­ar spár. Jafn­framt dróg veru­lega úr söl­unni hjá okk­ur vegna slæms um­tals sem veikti traust al­menn­ings á fé­lag­inu. Það er einnig ljóst að krón­an, verk­föll og ís­lenskt um­hverfi í heild sinni var ekki að gera okk­ur lífið auðveld­ara und­an­farna mánuði. 

Það er auðvelt að vera vit­ur eft­ir á og á þeim tíma þegar ákv­arðanir voru tekn­ar um stækk­un og stefnu­breyt­ingu WOW air var það aug­ljós­lega gert í þeirri trú að það væri best fyr­ir fé­lagið og að með þessu móti gæt­um við eflt WOW air enn frek­ar til langs tíma litið. Til dæm­is var það grund­vall­ar­atriði þegar ákveðið var að taka breiðþot­urn­ar í flota okk­ar að með þessu móti gæt­um við bet­ur var­ist auk­inni sam­keppni sem er að aukast með beinu flugi milli Evr­ópu og aust­ur­strand­ar Banda­ríkj­anna og þar af leiðandi lækk­andi far­gjöld­um á þeim leiðum. Við höfðum haft þetta að leiðarljósi þegar við pöntuðum fjór­ar glæ­nýj­ar breiðþotur til viðbót­ar við flota okk­ar sem áttu að af­hend­ast í lok árs 2018 og ætlað var að fljúga á fjar­læg­ari slóðir. For­send­urn­ar fyr­ir slík­um flug­um versnuðu hins veg­ar til muna mjög hratt síðastliðið haust vegna hækk­andi oliu­verðs og auk­inni sam­keppni í flugi á heimsvísu.

Ég hef verið sann­færður frá fyrsta degi að WOW air gæti orðið öfl­ugt flug­fé­lag. Ég fjár­festi í WOW air fyr­ir um 4 millj­arða króna allt frá stofn­un þess. Núna er ljóst að ég mun fá lítið sem ekk­ert af því til baka.  Ég var það sann­færður um að við vær­um á réttri leið að ég lánaði WOW air 600 millj­ón­ir króna í janú­ar 2018 eft­ir að fall Kortaþjón­ust­unn­ar setti veru­legt strik í reikn­ing­inn hjá okk­ur. Jafn­framt fjár­festi ég aft­ur fyr­ir um 750 millj­ón­ir króna í skulda­bréfa­út­boðinu í sept­em­ber 2018 ásamt öðrum fjár­fest­um. Til að geta tekið þátt í skulda­bréfa­út­boðinu fór ég í per­sónu­lega ábyrgð og veðsetti bæði húsið mitt og jörð í Hval­f­irði. Ég mun að öll­um lík­ind­um þurfa að selja hvort tveggja til að standa und­ir mín­um per­sónu­legu skuld­bind­ing­um og ábyrgðum vegna WOW air. Ég hef því lagt allt und­ir í þess­ari veg­ferð. 

Það var fyr­ir­séð og eðli­legt að marg­ir munu núna rýna í sögu og viðskipta­mód­el WOW air. Það væri mik­il ein­föld­un að full­yrða að WOW air hefði aldrei getað gengið eða að far­gjöld­in hafi verið ósjálf­bær og því hafi þetta verið dauðadæmt frá upp­hafi. Það er ein­fald­lega ekki rétt. Það er einnig fyr­ir­sjá­an­legt að ein­hverj­ir munu reyna að tor­tryggja WOW air og mig per­sónu­lega og viðskipti minna fé­laga við WOW air. Öll mín viðskipti við WOW air og fé­lög tengd mér hafa verið gerð á markaðsleg­um og viðskipta­leg­um for­send­um. Af gefnu til­efni má þar sér­stak­lega nefna að ég hef enga aðkomu að tveim­ur flug­vél­um sem WOW air var með í leigu og hef­ur verið fjallað um und­an­farið. Umræðan snýr að því að skráður eig­andi vél­anna er með fé­lög á Caym­an-eyj­um að nafni Sog og Tungna.  Hvorki ég né nein fé­lög tengd mér hafa nokkuð með þessi fé­lög að gera en eig­andi þess­ara flug­véla er Gos­hawk sem er stórt flug­véla­leigu­fyr­ir­tæki með starfstöðvar í Dublin og Hong Kong.

Það er óhemju erfitt og sorg­legt að horfa á eft­ir WOW air. Ég elskaði þetta fé­lag, fólkið okk­ar og það sem við stóðum fyr­ir og vor­um að byggja upp. Við flutt­um yfir 10 millj­ón­ir farþega frá upp­hafi og með okk­ur komu yfir tvær millj­ón­ir ferðamanna til Íslands. WOW air skapaði þúsund­ir starfa bæði beint hjá fé­lag­inu og fyr­ir ferðaþjón­ust­una í heild sinni. Það ligg­ur fyr­ir að bein­ar og óbein­ar tekj­ur rík­is­sjóðs af starf­semi WOW air nem­ur hundruðum millj­arða und­an­far­in ár. Við vor­um á góðri leið með að klára viðsnún­ing fé­lags­ins og að koma okk­ur aft­ur í sama bún­ing og við vor­um í á ár­un­um 2015 og 2016 en því miður gafst ekki tími til að klára fjár­mögn­un fé­lags­ins. Við reynd­um allt sem við mögu­lega gát­um til að forða fé­lag­inu frá gjaldþroti en það tókst því miður ekki.

Ég mun þurfa að lifa með þeim ákvörðunum sem ég tók alla tíð en það sem mér þykir verst er að hafa brugðist öllu því fólki sem stóð með mér og barðist fram í rauðan dauðann við að bjarga fé­lag­inu. Þetta var og er ein­stak­ur hóp­ur sem var heiður og for­rétt­indi að fá að vinna með. Þrátt fyr­ir hvernig fór mun ég ávallt vera stolt­ur af því sem við gerðum. Ég vona inni­lega að allt það sem við lögðum í fé­lagið og sú mikla reynsla og þekk­ing sem hef­ur orðið fari ekki for­görðum. Ég vona líka að þrátt fyr­ir hvernig fór að þetta æv­in­týri okk­ar letji ekki aðra frum­kvöðla frá því að láta drauma sína ræt­ast. 

Virðing­ar­fyllst,

Skúli Mo­gensen“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert