Ósögðu orðin hljóma hæst

„Það er líka mögulega það sterkasta við þessa sýningu hvað …
„Það er líka mögulega það sterkasta við þessa sýningu hvað það sem ekki er sagt skiptir miklu máli,“ segir í rýni um leiksýninguna Skjaldmeyjar hafsins. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Þetta er kvennasaga, saga formæðra okkar og margra kvenna enn í dag, ekki einungis eiginkvenna sjómanna heldur allra þeirra sem eiga maka sem eru meira og minna fjarverandi og fjarveran getur verið bókstafleg en líka andleg. Þetta er saga kvenna sem lifa við stanslausa bið og samfelldan kvíða um að eitthvað skelfilegt gerist, saga giftra en samt einstæðra mæðra,“ skrifar Daníel Freyr Jónsson í leikdómi um Skaldmeyjar hafsins sem leikhópurinn Artik frumsýndi nýverið í Samkomuhúsinu á Akureyri. 

Leikhópurinn Artik tekur þátt í gróðurhúsaverkefni Leikfélags Akureyrar sem er samstarfsverkefni félagsins og sjálfstæðra listamanna og leikhópa á Norðurlandi. Leiksýningin Skjaldmeyjar hafsins er beinheimildaverk sem byggir á viðtölum við tíu eiginkonur sjómanna á aldrinum 26 til 93 ára. 

„Leikritið fer hægt af stað, umhverfishljóð spila stóra rullu og stílhrein sviðsmyndin gefur strax ákveðna hugmynd um hugblæ verksins. Beinar og sterkar línur ráða för og hver kona er vandlega römmuð inn á sínum eigin skýrt afmarkaða ferkantaða fleti,“ segir í leikdómnum sem lesa má í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.  

Gagnrýnandi Morgunblaðsins fer fögrum orðum um frammistöðu leikkvennanna í uppfærslunni. „Hver kona fær þannig sterkari og skýrari persónueinkenni eftir því sem líður á leikritið og sögur þeirra draga áhorfandann smám saman inn í verkið en þá er allt búið. Sýningin er ekki nema um klukkutími að lengd en ég hefði viljað sitja lengur og fá að vita meira. Það hljóta að vera meðmæli með sýningu að maður verði vonsvikinn að hún sé ekki lengri.“

Að mati rýnis fá áhorfendur mjög frjálsar hendur við túlkun verksins. „Dramatískt og táknrænt atriði þar sem konurnar bókstaflega drógu upp hluti sem tengdust atburðum fortíðarinnar stakk örlítið í stúf meðan á því stóð en eftir á að hyggja stendur það svolítið upp úr vegna þess hversu margrætt það var og gaf margt í skyn. Það er líka mögulega það sterkasta við þessa sýningu hvað það sem ekki er sagt skiptir miklu máli, að það sem ýjað er að getur verið aðalatriðið í frásögnunum, að ósögðu orðin hljómi hæst í höfði sýningargesta þegar þeir ganga út úr leikhúsinu.“ Leikdóminn má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.  

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert