Þurfa að sækja um leyfi í þjóðgarðinum

Horft úr Fljótsdals til Snæfells sem er í Vatnajökulsþjóðgarði.
Horft úr Fljótsdals til Snæfells sem er í Vatnajökulsþjóðgarði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ferðaþjónustufyrirtæki sem starfa innan Vatnajökulsþjóðgarðs þurfa að gera samning um starfsemina og sækja um leyfi fyrir henni þar. Þau þurfa meðal annars að uppfylla reglur um öryggi starfsmanna og ferðamanna og uppfylla reglur um umgengni. Reglur þess efnis ganga í gildi að öllum líkindum á næstu mánuðum.  

Á síðasta ári kom yfir ein milljón ferðamanna í Vatnajökulsþjóðgarð. „Við erum að reyna að ná tökum á flóknu ástandi. Gífurlegur vöxtur hefur verið í ferðaþjónustunni undanfarið og við erum að beisla þetta núna. Við viljum kortleggja hverjir eru í þjóðgarðinum og hvað þeir eru að gera,“ segir Magnús Guðmundsson framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs.

Unnið er að þessari atvinnustefnu í þjóðgarðinum í samvinnu við meðal annars Samtök ferðaþjónustunnar, hagsmunaaðila á svæðunum og fleiri svo fátt eitt sé nefnt. Í atvinnustefnunni verða skýrari reglur um samskipti við þjóðgarðinn. Fljótlega verður atvinnustefnan sett í samráðsferli og stefnt er að því að hún verði gefin út í maí.

Ekki hægt að vita allt um alla

„Það er ógerningur að vita allt um alla. Okkar vandi er sá að Vatnajökulsþjóðgarður þekur 14% af yfirborði landsins. Það er ekki möguleiki eins og staðan er núna að vera með einhvers konar passa sem fólk þarf að vera með þegar það kemur,“ segir Magnús spurður hvort hægt sé að skylda fólk sem ferðast í lengri ferðir innan þjóðgarðsins að skila inn ferðaáætlun í ljósi nýlegs útkalls björgunarsveita í Eyjafirði. 

Fyrr í vikunni voru björgunarsveitir í Eyjafirði kallaðar út vegna Frakka sem óttast var að væri týndur á hálendinu. Eftir nokkurra klukkutíma leit náðist samband við hann og reyndist hann heill á húfi. Hann hafði ekki skilið eftir ferðaáætlun hjá björgunarsveitunum og fyrir vikið var leit að honum á hálendinu erfiðari. Maðurinn var hins vegar með neyðarsendi og hafði haft samband við Safe travel áður en hann lagði af stað i ferð þvert yfir hálendið á 2-3 vikum. Maðurinn óskaði ekki sjálfur eftir aðstoð heldur aðstandandi.    

Magnús bendir á að þetta sé nokkuð flókið mál og erfitt sé að ná eyrum og augum allra. Hins vegar er verið að vinna að því að reyna að ná utan um þorra fólksins sem kemur með atvinnustefnunni og aukinni fræðslu til ferðamanna.  

Gífurlegur vöxtur hefur verið í ferðaþjónustunni.
Gífurlegur vöxtur hefur verið í ferðaþjónustunni. mbl.is/Eggert

Láti vita ef það eru „skussar í hópnum“

Leyfin sem fyrirtækin þurfa að sækja um og eru rafræn. Eftirliti með þeim má líkja við að eiga bíl. Eiganda bílsins ber skylda til að láta skoða hann á hverju ári og hann má búast við að geta verið stoppaður hvenær sem er. Ljóst er að ekki verður hægt að stoppa hvern einn og einasta í þjóðgarðinum. „Fólk vill vera með hlutina í lagi og ég tel að þeir sem eru með leyfi láti vita ef það eru einhverjir skussar í hópnum,“ segir Magnús.  

Magnús Guðmundsson er framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs.
Magnús Guðmundsson er framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs. Morgunblaðið/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert