„Við erum vongóð og verðum að vera það. Hins vegar erum við ekki búin að fá nein svör frá stjórnvöldum um hvernig hagur okkar hóps hefur verið bættur með samningunum,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, um áhrif kjarasamninga á almennum markaði og lífskjarasamninga ríkisstjórnarinnar á kjör örorkulífeyrisþega.
Þuríður bendir á að ÖBÍ hafi þrýst á ASÍ um að ná fram skattalækkunum fyrir tekjulægsta hópinn og það hafi orðið að veruleika. Í samningunum líst henni í fljótu bragði vel á hækkun barnabóta, lengingu fæðingarorlofs, hækkun lægstu launanna og styttingu vinnuvikunnar.
„Samt sem áður er stór hluti okkar hóps fólk sem er komið yfir fimmtugt og eru konur. Við eigum eftir að sjá hvernig stjórnvöld ætla að bæta hag þessa hóps. Ég bíð spennt eftir því,“ segir Þuríður. Hún bendir á að öryrkjar séu undir atvinnuleysisbótum og því verði stjórnvöld að breyta.
Í því samhengi bendir hún á að stór hluti fátækra barna á Íslandi eigi foreldra sem eru öryrkjar. „Þetta hefur gríðarlega mikil áhrif á börnin og við getum ekki sætt okkur við það. Lausnin er að bæta okkar kjör,“ segir Þuríður.