Liðskiptaaðgerðir, augasteinsaðgerðir, tilteknar kvenlíffæraaðgerðir og brennsluaðgerðir vegna gáttatifs verða í forgangi við ráðstöfun 840 milljóna króna sem ætlaðar eru til að stytta bið sjúklinga eftir mikilvægum aðgerðum. Þetta kemur fram á vef heilbrigðisráðuneytisins.
Þetta eru sömu aðgerðaflokkarnir og settir voru í forgang samkvæmt mati embættis landlæknis í sérstöku biðlistaátaki til þriggja ára sem lauk á síðasta ári. Átakið skilaði umtalsverðum árangri og tókst að stytta biðtíma eftir öllum þeim aðgerðum sem um ræðir.
„Ljóst er að halda þarf áfram á sömu braut svo biðtíminn lengist ekki á ný. Sérstaklega er mikilvægt að framkvæma eins margar liðskiptaaðgerðir og kostur er þar sem þörf fyrir slíkar aðgerðir eykst jafnt og þétt.
Til að mæta þörf fyrir aukinn fjölda valinna aðgerða var með fjárlögum þessa árs ákveðið að veita varanlega fjárveitingu, samtals 840 milljónir króna, til að fjölga tilteknum mikilvægum aðgerðum samkvæmt mati landlæknis og sporna með því við langri bið sjúklinga.
Líkt og í átaksverkefninu munu Landspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands taka að sér að sinna umtalsvert fleiri aðgerðum en þær myndu gera að öllu óbreyttu, með þeim fjármunum sem sérstaklega eru ætlaðir í þessu skyni,“ segir í frétt á vef ráðuneytisins.
Alls munu stofnanirnar þrjár framkvæma um 570 liðskiptaaðgerðir umfram þann aðgerðafjölda sem þær hefðu annars sinnt án sérstaks fjárframlags. Af þeim verða 250 gerðar á Landspítalanum, 250 á Sjúkrahúsinu á Akureyri og 70 á Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Til samanburðar voru gerðar samtals 523 liðskiptaaðgerðir í biðlistaátaki síðasta árs.
Augasteinsaðgerðir verða 1.300 fleiri en ella. Fjölgunin þessara aðgerða er fyrst og fremst hjá Landspítalanum sem mun sinna 1.200 aðgerðum en 100 þeirra verða gerðar á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Sambærilegar aðgerðir sem féllu undir biðlistaátak síðasta árs voru um það bil jafnmargar, eða 1.305 samtals og voru nær allar þeirra gerðar á Landspítalanum.
Við Landspítalann verður völdum aðgerðum á grindarbotnslíffærum kvenna fjölgað um 80, viðbótin nemur 28 aðgerðum við Sjúkrahúsið á Akureyri og 29 við Heilbrigðisstofnun Vesturlands.
Landspítalinn framkvæmdi 310 hjartaþræðingar og kransæðavíkkanir sem féllu undir biðlistaátak síðasta árs árið 2018. Á þessu ári er ekki gert ráð fyrir slíkum aðgerðum innan átaksins, heldur er miðað við að framkvæmdar verði brennsluaðgerðir vegna gáttatifs fyrir svipaða upphæð og varið var til þræðinga og kransæðavíkkana í átakinu í fyrra.
Embætti landlæknis kallar þrisvar á ári eftir upplýsingum um stöðu á biðlistum eftir völdum skurðaðgerðum. Meðal upplýsinga sem óskað er eftir er heildarfjöldi á biðlista og fjöldi þeirra sem hefur beðið lengur en 3 mánuði. Síðasta samantekt er frá því í október 2018.