Dómur vegna banaslyss staðfestur

Hjólabátur við Jökulsárlón.
Hjólabátur við Jökulsárlón. mbl.is/Helgi Bjarnason

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Austurlands í máli karlmanns sem ákærður var fyrir manndráp af gáleysi vegna banaslyss sem varð við Jökulsárlón í ágúst 2015.

Maður­inn neitaði sök fyr­ir héraðsdómi, sem dæmdi hann í tveggja mánaða skil­orðsbundið fang­elsi og svipti hann öku­rétt­ind­um í hálft ár. Dóm­ur féll í héraði í janú­ar í fyrra en maður­inn áfrýjaði mál­inu til Lands­rétt­ar.

Við fyrirtöku málsins í Landsrétti fór saksóknari síðan fram á þyngri dóm yfir manninum, hvort sem það væri þyngri refsins eða lengri ökuréttindasvipting. 

Lögmaður mannsins fór hins vegar fram á að fallið yrði frá öllum ákærum og til vara að maðurinn yrði dæmdur til vægustu refsingar.

Maður­inn var skip­stjóri á hjóla­bát sem var bakkað yfir kanadíska konu við Jök­uls­ár­lón í ág­úst 2015. Var hann ákærður fyr­ir „að hafa, síðdeg­is fimmtu­dag­inn 27. ág­úst, ekið hjóla­bátn­um Jaka SF-2223, sem er þiljað farþega­skip, aft­ur á ­bak frá farþegapalli og um malarpl­an norðan við þjón­ustu­bygg­ing­una við Jök­uls­ár­lón í sveit­ar­fé­lag­inu Hornafirði, án nægj­an­legr­ar aðgæslu þannig að hjóla­bát­ur­inn hafnaði á gang­andi veg­far­and­an­um, Shelagh D. Donov­an, f. 13. fe­brú­ar 1956, sem féll við og lenti und­ir hægra aft­ur­hjóli öku­tæk­is­ins með þeim af­leiðing­um að hún hlaut fjölá­verka og lést nær sam­stund­is.“

Hafði ekki réttindi til að stýra bátnum

Í skýrslu rann­sókn­ar­nefnd­ar sam­göngu­slysa kom fram að maður­inn hafði ekki rétt­indi til að stýra bátn­um. Þar seg­ir að bakk­mynda­vél, sem er í öll­um slík­um bát­um sem sigla á Jök­uls­ár­lóni, hafi verið biluð í bátn­um og svo hafi verið um nokk­urt skeið. Þá hafi hvorki skip­stjór­inn né ann­ar starfsmaður gengið úr skugga um að hættu­laust væri að aka aft­ur á bak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka