Ráðuneytið er að leita að lausnum

Kópavogshælið.
Kópavogshælið. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum vel meðvituð um aðstæður þessa fólks á Kópavogshælinu og viljum finna varanlega lausn á þess málum,“ segir Sóley Ragnarsdóttir, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra.

Eins og sagði frá í Morgunblaðinu á miðvikudag búa fjórir – karlar og konur – enn á hælinu. Eru þar með skráð lögheimili í húsum í eigu Landspítalans en njóta þjónustu frá Ási styrktarfélagi. Aðstæðurnar sem fólkið býr við þykja hvorki boðlegar né í samræmi við kröfur tímans og hafa forsvarsmenn Áss óskað eftir því við félagsmálaráðherra að bætt verði úr og hafa gefið til þess frest út líðandi mánuð.

Þorri vistmanna á Kópavogshælinu flutti þaðan á brott fyrir allmörgum árum og fór á sambýli eða sambærilega þjónustu sem uppfyllir kröfur dagsins í dag. Tíu manns urðu þó eftir, sex af þeim eru nú látnir og eftir urðu fjórir og um þá hverfast málin nú.

Sóley segir mál þessa fólks hafa verið í vinnslu í félagsmálaráðuneytinu í talsverðan tíma. Ýmsum tillögum til lausna hafi verið velt upp og málið rætt við fjölda aðila. „Ég vonast til þess að við getum kynnt farsæla lausn á þessu máli alveg á næstu dögum,“ segir Sóley í samtali við Morgunblaðið. sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert