„Risastórt framfaraskref“

Ragnar Þór Ingólfsson, annar frá vinstri, á fundinum.
Ragnar Þór Ingólfsson, annar frá vinstri, á fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum að stíga risastórt framfaraskref á húsnæðismarkaði eiginlega frá öllum hliðum,“ sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, á fundi í húsnæði Íbúðalánasjóðs þar sem skýrsla starfshóps um húsnæðismál ungs fólks og tekjulágra var kynnt.

„Markmið verkalýðshreyfingarinnar var tvíþætt, að hækka laun og lækka kostnaðinn við að lifa. Í því eru húsnæðismálin einn stærsti kostnaðarliðurinn sem við getum tekið á,“ sagði Ragnar Þór og nefndi m.a.lækkun vaxta og aðgerðir vegna verðtryggingar.

Hann sagði að núna hæfist hin raunverulega vinna hjá verkalýðshreyfingunni við að koma þeim hlutum sem samið var um í nýjum kjarasamningum í framkvæmd.

„Tillögurnar ríma fullkomlega við það sem við erum að gera í verkalýðshreyfingunni,“ sagði Ragnar Þór.

„Ég fagna því mjög að þessi úrræði munu ná til jaðarsettshóps í okkar samfélagi.“

Hann bætti við að tillögurnar rímuðu mjög vel við „þessi fyrstu risastóru skref sem við erum loksins að taka í átt að afnámi verðtryggingar“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert