„Við teljum það mjög mikilvægt að félagsmenn okkar fái réttar og nákvæmar upplýsingar. Framsetning á kynningu þessa var þess eðlis að hún gat boðið heim mistúlkun. Staðreyndin er sú að starfsmenn þurfa að færa ákveðnar fórnir fyrir styttingu vinnuvikunnar. Þeir þurfa að gefa frá sér launaða kaffitíma.“
Þetta segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. Vísar hann þar til sveigjanlegri og styttri vinnudags launafólks, sem kynntur var sem hluti af kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins við aðildarfélög Starfsgreinasambandsins.
Efling sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem því var komið á framfæri að ekki fælust neinar tryggingar fyrir styttingu vinnutímans hjá almennu verkafólki í nýkynntum „lífskjarasamningi“. Í samningnum fælist heimild til afmarkaðra vinnutímabreytinga sem þegar hafi verið til staðar í 5. kafla kjarasamnings við SA. Sú heimild snúist í raun um vinnustaðabundnar viðræður og framkvæmd á raunstyttingu vinnutíma gegn því að launaðir kaffitímar verði einnig afnumdir að hluta eða í heild. Segir að þessi heimild muni „ekki hafa áhrif á nema á einstaka vinnustöðum þar sem samkomulag um slíkt næst“.
Viðar fellst á að þarna sé kominn hvati til að stytta vinnuvikuna og það sé í sjálfu sér jákvætt. Hann segir þó að snúið geti verið að finna útfærslur þar á. Ekki geti allir aukið afköst svo þeir komist fyrr heim. Víða sé fastur vinnutaktur vegna véla eða færibanda og öryggisvörður hjá Securitas geti ekki unnið hraðar en áður. „Við erum hlynnt styttingu vinnutímans og erum ekki að lýsa óánægju með að þetta sé í samningnum en við hvetjum til að rætt sé um þetta á jarðbundinn hátt.“
Í fréttaskýringu um þetta efni í Morgunblaðinu í dag segir Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, að ekki sé um einstaklingsbundna samninga að ræða. Semja ætti við alla starfsmenn á hverjum vinnustað.