„Þolinmæðin er á þrotum,“ segir í fundargerð bæjarráðs Vestmannaeyja og er vísað þar til vandræða í samgöngum milli Landeyjahafnar og Eyja. Telur bæjarráðið að illa hafi gengið að dýpka Landeyjahöfn og vill að Vegagerðin taki fastar á málinu, auk þess sem raunhæf áætlun verði lögð fram um hve fljótt verði hægt að opna höfnina.
„Það er einhuga afstaða bæjarráðs að ekki sé hægt að búa við þá stöðu sem uppi er vegna ástandsins í Landeyjahöfn. Heilt samfélag líður fyrir það hvernig ákvörðunum við dýpkun Landeyjahafnar hefur verið háttað. Ljóst er að bæta þarf við þann tækjakost sem sinnt hefur dýpkun í mars til þess að efla afkastagetuna,“ segir m.a. í fundargerð bæjarráðs.
Eitt dýpkunarskip frá Björgun ehf. hefur verið að störfum í höfninni. Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs, segir Björgun ekki hafa tækin í verkefnið. Lokun hafnarinnar hafi mikil áhrif á bæinn. „Ferðaþjónustan finnur til dæmis mjög mikið fyrir því þegar þessi höfn er lokuð svona langt fram á vorin. Það er mikið um afbókanir á hótelum, kynnisferðum, útsýnisferðum og öðru,“ segir Njáll.
Magnús Bragason, hótelstjóri í Eyjum, staðfestir að mikið hafi verið um afbókanir. Það sé slæmt því jafnan hafi straumur ferðamanna til Eyja byrjað í kringum mánaðamótin mars apríl.
„Þegar ekki er siglt í Landeyjahöfn þá afbóka þeir gestir sem eiga bókaða gistingu hjá okkur,“ segir Magnús. Lárus Dagur Pálsson, framkvæmdastjóri Björgunar, segir fyrirtækið vera með tæki og flota sem geti við góðar aðstæður afkastað meiru en aðrir. Björgun sé með tæki sem hafi staðist útboðskröfur Vegagerðarinnar.