Verði fyrsti kostur allra neytenda

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Öllum er okkur ljós sú ógn sem stafar af útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería,“ sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda sem fram fór í gær þar sem hann gerði einkum áform stjórnvalda um að leyfa innflutning á ófrosnu hráu kjöti í kjölfar dóms EFTA-dómstólsins um að bann við því færi gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES).

Ráðherrann fjallaði um aðgerðir sem stjórnvöld ætluðu að grípa til í þeim tilgangi að vernda innlenda landbúnaðarframleiðslu en lagði um leið áherslu á að frystiskyldan hefði engin áhrif á sýklalyfjaónæmar bakteríur. Vísaði hann þar til orða yfirdýralæknis í fjölmiðlum. Þannig breytti engu hvort kjöt væri ferskt eða frosið með tilliti til sýklalyfjaónæmis. Umræðan væri því á villigötum hvað það varðaði að hans áliti.

Tólf aðgerðir hefðu áður verið kynntar. Meðal annars um viðbótartryggingar vegna kjúklinga- og kalkúnakjöts og eggja, ráðstafanir varðandi kampýlóbakter sem og áhættumatsnefnd og fræðslu til ferðamanna. Kristján Þór sagði að eftir fundi um allt land og eftir yfirferð umsagna sem komið hefðu um málið í samráðsgátt stjórnvalda hafi hann ákveðið að bæta þremur aðgerðum við áætlunina.

Fyrir það fyrsta yrði óskað eftir viðbótartryggingum vegna svína- og nautakjöts. Í annan stað yrði þróun tollverndar og greining á stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi verði tekin til sérstakrar skoðunar. Í þriðja lagi yrði brugðist við ábendingum sem komið hefðu fram um að ekki væri til staðar tryggingasjóður sem bændur gætu leitað til vegna mögulegs tjóns á búfé.

„Ég segi hins vegar við ykkur að í þessu máli snýr stærsta verkefnið að því að draga fram óumdeilda kosti innlendrar matvælaframleiðslu umfram það sem innflutt er og stuðla þannig að því að íslenskar vörur verði fyrsti kostur allra neytenda. Við snúum þannig vörn í sókn. Ég er sannfærður um að með samstilltu átaki stjórnvalda og bænda mun þetta takast. Það mun ekki stranda á stjórnvöldum í þeirri baráttu. Þarna er tækifæri til þess að gera mun betur en nú er gert, tækifæri til þess að gera framleiðsluna okkar hærra undir höfði,“sagði ráðherrann ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert