Níu vegaframkvæmdir eru á lista um flýtiframkvæmdir sem starfshópur um fjármögnun samgönguframkvæmda hefur reiknað út að séu arðbærastar.
Framkvæmdirnar eru út frá höfuðborgarsvæðinu, á Suðurlandsvegi austur fyrir Selfoss, Reykjanesbraut að Flugstöð og Vesturlandsvegi upp í Borgarnes, auk Grindavíkurvegar, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Allra arðbærustu framkvæmdirnar eru flýting lagningar Suðurlandsvegar frá Norðlingaholti að Fossvöllum og Suðurlandsvegar á milli Kamba og gatnamóta Biskupstungnabrautar.