Ekki er með öllu vitað hvaða áhrif tillögur starfshóps að úrræðum til að auðvelda ungu fólki og tekjulágum að eignast húsnæði munu hafa á fasteignamarkaðinn segir Ásgeir Jónsson, dósent við hagfræðideild Háskóla Íslands.
Í samtali við mbl.is segir hann skort hafi hagkvæmar íbúðir og að erfitt sé að laga framboðsvanda frá eftirspurnarhliðinni. „Þær íbúðir sem eru að koma á markaðinn núna eru ekki fyrir ungt fólk, þær eru allt of dýrar og það er skortur á litlum hagkvæmum íbúðum. Að mínu viti er alltaf best að taka á svona máli frá framboðshliðinni.“
Starfshópur félagsmálaráðherra kynnti 14 tillögur að leiðum til þess að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn á blaðamannafundi í gær.
Meðal tillagna er að ríkið veiti eignfjárlán sem nema allt að 15 til 20% af kaupverði og að heimilt verði að ráðstafa allt að 3,5 prósentustigum lífeyrisiðgjalds til húsnæðissparnaðar.
Ásgeir segir erfitt er greina áhrifin af tillögunum á markaðinn þar sem þurfi að sjá heildarmyndina. Á meðan sumar tillögurnar séu eftirspurnarhvetjandi og geta haft þau áhrif að fasteignaverð hækki, séu aðrar tillögur til þess fallnar að kæla markaðinn.
Hann segir skipta verulegu máli hvað varðar kortlagningu mögulegrar eftirspurnaraukningu, að skoða „hverjir raunverulega geta notað úrræðin og hvað það er stór hópur.“ Sé fjöldin takmarkaður muni það líklega ekki hafa mikil áhrif.
Meðal tillagna starfshópsins er að stytta hámarks lánstíma verðtryggðra lána niður í 25 ár úr 40. Jafnframt að lengja lágmarks lánstíma verðtryggðra lána í tíu ár.
„Það eitt og sér að það eigi að fara að stytta lánstíma verðtryggðra lána, það mun hafa veruleg áhrif á fasteignamarkaðinn. Þá hækkar upphafsgreiðslubyrði sem mun kæla fasteignamarkaðinn ef nafnvextir lækka ekki,“ segir Ásgeir og ítrekar að til þess að meta áhrif þeirra tillagna sem lagðar hafa verið fram þurfi að greina alla anga þeirra.