Kvennablaðið hefur lagst í ótímabundinn dvala. Þetta kemur fram í grein á vef blaðsins frá Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, ritstjóra og Soffíu Steingrímsdóttur, framkvæmdastjóra sem þakka lesendum fyrir samfylgdina.
„Það er erfitt að reka sjálfstæða fjölmiðla á Íslandi. Af þeim sökum hættum við útgáfu blaðsins hér og nú. Þetta hefur verið lærdómsríkt og skemmtilegt og ég trúi því að blaðið hafi gert mikið gagn á næstum sex árum sem það hefur starfað. Blaðið er skuldlaust sem ég held að sé einsdæmi í íslenskri fjölmiðlasögu, það fer enginn á hausinn,“ segir Steinunn Ólína, en hún kveðst vona að sjálfstæðum blaðaútgefendum verði gert auðveldara að halda úti starfi sínu enda sé það nauðsynlegt fyrir lýðræðið í landinu.
Þær Steinunn Ólína og Soffía benda greinahöfundum Kvennablaðsins að afrita efni sitt enda verði vefnum lokað von bráðar. Hér að neðan er grein þeirra í heild.
Ágætu lesendur.
Kvennablaðið leggst nú í ótímabundinn dvala og af því tilefni viljum við þakka lesendum fyrir samfylgdina. Kvennablaðið vefmiðill hóf göngu sína í nóvember 2013 og lengst af í ritstjórn Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur en hún endurvakti blaðið sem langamma hennar Bríet Bjarnhéðinsdóttir stofnaði árið 1885 og ritstýrði í 25 ár.
Undirritaðar, forsvarsmenn Kvennablaðsins, vilja á þessum tímamótum þakka öllum þeim fjölmörgu blaðamönnum og pennum sem lagt hafa blaðinu lið í launaðri og ólaunaðri vinnu og ber þá að telja sérstaklega Hauk Má Helgason sem ritstýrt hefur blaðinu síðustu misserin, Evu Hauksdóttur, Hlín Einarsdóttur, Andra Þór Sturluson, Atla Þór Fanndal, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, Steinunni Ingu Óttarsdóttur, Kristinn Hrafnsson, Kristján Frímann Kristjánsson, Kára Stefánsson, Ingunni Bylgju Einarsdóttur, Einar Steingrímsson, Anton Helga Jónsson, Báru Halldórsdóttur og Tobbu Marinósdóttur.
Bestu þakkir fá einnig þeir fjölmörgu sem hafa skrifað greinar í blaðið og sent okkur ábendingar um efni og efnistök á undangengnum sex árum sem og prófarkalesarar þeir sem hafa lagt blaðinu lið.
Hjartans þakkir fá þeir Þorsteinn Þorsteinsson, Einar Aðalsteinsson vefhönnuður, Kristján Steinarsson leynivinur (blessuð sé minning hans) og Þorvaldur Sverrisson fyrir stuðning á trylltum stundum.
Við viljum að lokum benda öllum greinarhöfundum Kvennablaðsins að afrita efni sitt ef þeir þess kjósa á allra næstu dögum en eftir um það bil viku verður vefurinn óaðgengilegur.
Við þökkum innilega fyrir samstarfið og samfylgdina og vonum að þið njótið sumarsins!
Steinunn Ólína & Soffía Steingrímsdóttir