Ólíkar farleiðir óðinshana eftir varpsvæðum í Norður-Evrópu hafa vakið athygli, en fuglinn fer um langan veg til vetrardvalar. Fuglar merktir með dægurritum í Aðaldal og Flóanum flugu um tíu þúsund kílómetra leið til vetrardvalar í Kyrrahafinu nálægt miðbaug. Frændur þeirra í norðanverðri Skandinavíu höfðu hins vegar vetrardvöl við Arabíuskagann. Yann Kolbeinsson, fuglafræðingur á Náttúrustofu Norðausturlands, segir það einsdæmi að fuglastofn í Evrópu fari vestur til Kyrrahafsins.
Nokkrir íslenskir vísindamenn tóku þátt í fjölþjóðlegum rannsóknum á fari óðinshana, en nýlega var greint frá niðurstöðunum. Þær sýna að íslenskir fuglar, ásamt þeim sem verpa á öðrum eyjum í norðaustanverðu Atlantshafi, fara til vetrarstöðva umhverfis miðbaug í austanverðu Kyrrahafi, m.a. undan ströndum Perú og Ekvador.
Fuglar frá norðanverðri Skandinavíu og Rússlandi fara aftur á móti í suðaustur til vetrarstöðva í Indlandshafi og umhverfis Arabíuskaga. Þessar tvær farleiðir eru mjög ólíkar þar sem vesturleiðin liggur yfir haf en austurleiðin að mestu yfir meginland.
Yann var meðal íslenskra þátttakenda í rannsókninni og segir að fyrir sjö árum hafi óðinshanar verið merktir á Hjaltlandseyjum. Ári síðar endurheimtist einn þessara fugla. Með upplýsingum úr dægurrita hans hafi fengist fyrsta sönnun þess að fugl frá Evrópu færi í suðvestur og til Kyrrahafsins. Mönnum hafi fundist líklegt að íslenskir og grænlenskir fuglar færu einnig þessa leið og það hafi nú fengist staðfest með fyrrnefndri rannsókn.
„Eyjafuglarnir fara á sömu vetrarstöðvar við Kyrrahafið og sá ameríski, að minnsta kosti þeir fuglar sem verpa í austanverðri Norður-Ameríku,“ segir Yann. „Í útliti virðist enginn munur vera á óðinshana hvort sem hann er á Íslandi eða í Skandinavíu. Hins vegar komumst við að því að fuglar sem verpa á eyjunum eru að jafnaði með lengri vængi heldur en Skandinavíufuglarnir.
Það bendir til þess að einhver munur sé á fuglunum og hugsanlega er um að ræða þróun eða aðlögun af því að þeir þurfa að fljúga mun lengra á vetrarstöðvarnar eða tæplega tíu þúsund kílómetra á móti um sex þúsund kílómetrum.“
Aðspurður hvort genarannsóknir hafi verið gerðar til að bera saman stofna í Evrópu og Ameríku segir Yann það ekki hafa verið gert enn þá. Niðurstöðurnar um aðskilnað þessara varpstofna, sem endurspeglist m.a. í ólíkum vetrarstöðvum og stærð vængja, séu hins vegar talsverð tíðindi.
Óðinshani kemur meðal síðustu farfugla til landsins og sést fyrst að meðaltali 8. maí. Hann er smávaxinn vaðfugl og vegur ekki nema 25-40 grömm og hið langa ferðalag hans hlýtur að teljast nokkurt afrek. Óðinshani, einnig kallaður skrifari, flýgur hratt og flöktir mikið. Oftast sést hann á sundi, þar sem hann hringsnýst og þyrlar upp fæðu. Hann er vel aðlagaður sjó og vatni með litlar blöðkur á fótunum.
Óðinshanar hafa síðustu sumur verið merktir hér á landi með dægurritum og endurheimtust fjórir fuglar sumrin 2015 og 2018, 1-2 árum eftir merkingu, tveir í Aðaldal og tveir í Flóanum. Dægurritar eru festir á bakpoka sem liggur utan um fætur fuglanna og í þeim er ljósflaga og innbyggð klukka. Þegar merkin eru endurheimt er hægt að lesa ýmsar upplýsingar úr þeim gögnum sem dægurritinn hefur safnað. Yann segir að það sjáist býsna vel hvenær fuglinn er á fari og hvenær hann staldrar við til að hvíla sig og nærast. Nákvæmnin sé upp á 180 kílómetra sem sé ásættanlegt miðað við langflug fuglanna.
Þegar fuglarnir fara frá Íslandi taka þeir stefnuna í suðvestur og margir þeirra, ef ekki allir, hvíla sig í Fundy-flóa í Kanada. Þeir fylgja austurströnd N-Ameríku og stoppa þar á nokkrum stöðum. Flestir fari síðan án þess að stoppa suður yfir Mexíkóflóa, yfir Mið-Ameríku og til Kyrrahafsins. Frændur þeirra frá Skandinavíu fara yfir meginland Evrópu á leið til Arabíuskagans og eru síðan stóran hluta ársins á Indlandshafi, að sögn Yanns.
Nálgast má greinina í tímaritinu Frontiers of Ecology and Evolution