Höskuldur Daði Magnússon
„Við vildum auðvitað sjá þetta burt en reglurnar hafa í það minnsta verið rýmkaðar. Þetta er skref í rétta átt og kannski náum við þessu út næst,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Reglur um svokallað fullorðinskaup verða rýmkaðar í nýjum kjarasamningum SGS við SA, verði þeir samþykktir. Fram til þessa hefur fullorðinskaup verið miðað við 20 ár eða að viðkomandi hafi þurft að vinna 700 klukkustundir til að komast á fullt kaup. Að sögn Björns breytast ákvæði um þetta á þann veg að miðað verði við 18 ára aldur eða skila þurfi 300 tímum hjá atvinnurekanda eða 500 tímum í starfsgrein til að komast á fullt kaup. Launin á þeim tíma eru 95%.
Björn segir að fleiri ánægjulegir áfangar hafi náðst við gerð kjarasamninganna. Til að mynda rýmri veikindaréttur foreldra. Fram til þessa hefur veikindaréttur vegna barna miðast við 13 ára aldur en í nýju samningunum færist hann upp að 16 árum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.