Þrjár milljónir kostar á dag að gefa frítt í Strætó að sögn Guðmundar Heiðars Helgasonar, upplýsingafulltrúa Strætó, en á morgun munu íbúar á höfuðborgarsvæðinu geta nýtt sér frían dagsmiða í Strætóappinu vegna vísbendinga um svifryksmengun. Ákvörðunin er tekin einhliða af Strætó, en ekki hefur verið mótaður ferill eða skipulag þannig ávallt verði frítt í Strætó þegar ógn stendur af svifryki.
Spurður hvort Strætó búist við mikilli fjölgun farþega á morgun kveðst Guðmundur vonast til þess. „Við verðum með einhverja í flotanum á bakvakt. Ef það verður mikið álag á ákveðnum leiðum getum við þá sent aukabíla. Það hefur oft reynst vel. Við erum að gera þetta í fyrsta sinn og vitum í raun ekki hverju búast má við,“ segir hann.
Borið hefur á gagnrýni vegna þess fyrirkomulags Strætó að þeir sem vilji taka strætó frítt á gráum dögum þurfi að ná í Strætóappið og virkja inni í því frímiða sem gildir út daginn. „Fólk hefur spurt hvort það sé ekki einfaldara að hafa bara frítt fyrir alla. Ástæðan fyrir því að við gerum þetta svona er að við viljum geta mælt það vel hve margir nýta sér þetta og virkja þá miðann. Síðan viljum við líka gefa fleirum færi á því að prófa appið og vita hvernig það virkar. Það er hugsunin,“ segir Guðmundur.
Spurður hver kostnaðurinn við að hafa frítt í strætó í heilan dag sé, segir Guðmundur að miðað við venjulegan dag yrði kostnaðurinn u.þ.b. þrjár milljónir króna. „Ég veit ekki hver endanlegur kostnaður af þessu verður á morgun, það fer eftir því hve margir munu nota þennan miða í staðinn fyrir hefðbundin fargjöld í rauninni,“ segir Guðmundur.
Ákvörðunin um að hafa frítt í strætó á morgun er tekin af Strætó, en ekki af þeim sveitarfélögum sem eru eigendur félagsins. Ekki liggur fyrir ferill eða skipulag þannig ávallt verði frítt í strætó á svonefndum „gráum dögum“. „Forsvarsmenn okkar hafa séð fram á að það að hafa frítt í strætó leysi ekki endilega allt vandamálið, en við gerum þetta núna til að prófa þetta,“ segir Guðmundur.
Sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur lögðu nýverið til að frítt yrði í strætó á gráum dögum auk fleiri aðgerða til að bregðast við svifryki í borginni. „Þetta er til umræðu í borgarstjórnmálunum og Sjálfstæðiflokkurinn lagði fram hugmynd um þetta fyrir nokkrum vikum síðan. Ef það er pólitískur vilji hjá eigendum Strætó að gera þetta svona, þá gæti þetta orðið að veruleika. Frá okkar bæjardyrum séð, þá munum við gera þetta á morgun og kannski einu sinni enn,“ segir Guðmundur, en hugmyndin er fjármögnuð með markaðsfé Strætó. Aðspurður segir hann að Strætó muni deila niðurstöðum sínum af „gráum degi“ á morgun með stjórnmálamönnunum.
Guðmundur segir að framvegis, þegar melding berist frá heilbrigðiseftirlitinu um hættu af svifryki, muni Strætó þó áfram auglýsa og hvetja fólk til að taka strætó, jafnvel þótt ekki verði frítt í strætó.