Embætti landlæknis auglýsti eftir húsnæði til leigu í Morgunblaðinu í gær. „Miðað er við að húsnæðið verði tekið á leigu til 10 ára, fullbúið til notkunar og án lauss búnaðar,“ segir í auglýsingu embættisins. Húsrýmisþörf embættisins er 1.480 fermetrar samkvæmt auglýsingunni. Í kvöldfréttum RÚV í kvöld var ástæða flutninganna sögð mygla í fyrri húsakynnum, í gömlu heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg.
Óháður matsmaður sem skoðaði húsnæði embættis landlæknis við Barónsstíg vegna gruns um myglu skilaði áliti sínu í síðustu viku. Alma D. Möller, landlæknir, kvaðst þá ekki geta tjáð sig um innihald skýrslunnar og að á næstu vikum myndi skýrast hver næstu skref yrðu í húsnæðismálum embættisins.
Ágreiningur er milli landlæknisembættisins og eiganda hússins um orsakir myglunnar. Fyrrnefndur matsmaður er sá þriðji sem kallaður er til að rannsaka húsnæðið með tilliti til rakaskemmda og myglu. Áður höfðu bæði eigandi húsnæðisins og landlæknisembættið fengið fyrirtæki til þess að rannsaka húsnæðið og þær niðurstöður stönguðust á.
Í frétt RÚV í kvöld kennir eigandi hússins landlæknisembættinu um myglu og skemmdir í húsnæðinu. Hann segir embættið hafa sýnt af sér vanrækslu og sóðaskap. Þessu hafnaði landlæknir og sagði ekkert í fyrrnefndum skýrslum sýna fram á þetta.
Þriðjungur starfsmanna landlæknisembættisins hefur fundið fyrir áhrifum myglu í húsnæðinu að Barónsstíg. Þeir þurftu ýmist að færa starfsstöðvar innanhúss eða flytja í aðrar byggingar. Hafa nokkrir starfsmenn embættisins fengið starfsstöð í heilbrigðisráðuneytinu.