Landlæknir flytur vegna myglu

Landlæknisembættið auglýsir eftir 1.500 fermetra leiguhúsnæði fyrir starfsemi sína. Landlæknir …
Landlæknisembættið auglýsir eftir 1.500 fermetra leiguhúsnæði fyrir starfsemi sína. Landlæknir er nú til húsa í gömlu heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Embætti landlæknis auglýsti eftir húsnæði til leigu í Morgunblaðinu í gær. „Miðað er við að húsnæðið verði tekið á leigu til 10 ára, fullbúið til notkunar og án lauss búnaðar,“ segir í auglýsingu embættisins. Húsrýmisþörf embættisins er 1.480 fermetrar samkvæmt auglýsingunni. Í kvöldfréttum RÚV í kvöld var ástæða flutninganna sögð mygla í fyrri húsakynnum, í gömlu heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg. 

Óháður matsmaður sem skoðaði hús­næði embætt­is land­lækn­is við Baróns­stíg vegna gruns um myglu skilaði áliti sínu í síðustu viku. Alma D. Möller, land­lækn­ir, kvaðst þá ekki geta tjáð sig um inni­hald skýrsl­unn­ar og að á næstu vik­um myndi skýrast hver næstu skref yrðu í hús­næðismál­um embættisins.

Ágreiningur um orsakir myglu

Ágreiningur er milli landlæknisembættisins og eiganda hússins um orsakir myglunnar. Fyrrnefndur matsmaður er sá þriðji sem kallaður er til að rann­saka hús­næðið með til­liti til raka­skemmda og myglu. Áður höfðu bæði eig­andi hús­næðis­ins og land­læknisembættið fengið fyr­ir­tæki til þess að rann­saka hús­næðið og þær niður­stöður stönguðust á. 

Í frétt RÚV í kvöld kennir eigandi hússins landlæknisembættinu um myglu og skemmdir í húsnæðinu. Hann segir embættið hafa sýnt af sér vanrækslu og sóðaskap. Þessu hafnaði landlæknir og sagði ekkert í fyrrnefndum skýrslum sýna fram á þetta.

Þriðjung­ur starfs­manna land­læknisembætt­is­ins hef­ur fundið fyr­ir áhrif­um myglu í hús­næðinu að Barónsstíg. Þeir þurftu ým­ist að færa starfs­stöðvar innanhúss eða flytja í aðrar byggingar. Hafa nokkrir starfsmenn embættisins fengið starfsstöð í heilbrigðisráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert