Ekki kemur fram í dómi Landsréttar á föstudag hvers vegna refsing yfir Þórði Juhasz er milduð en þrír dómarar Landsréttar staðfestu dóm héraðsdóm yfir honum en lækkuðu refsinguna úr fjórum árum í þrjú og hálft ár. Þórður var sakfelldur fyrir að nauðga 14 ára stúlku.
Landsréttur vísar í dómi sínum til 205 gr. og a liðar 1. mgr. 195. gr. almennra hegningarlaga auk 1. mgr. 70 gr. sömu laga. Þar segir: Þegar hegning er tiltekin, á einkum að taka til greina eftirtalin atriði: Hversu mikilvægt það er, sem brotið hefur beinst að.
Í greinum 194, 195 og 205 segir svo:
194. gr.
[[Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.]
Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. [að beita blekkingum eða notfæra sér villu viðkomandi um aðstæður eða] að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.]
195. gr.
[Þegar refsing fyrir brot gegn 194. gr. er ákveðin skal virða það til þyngingar:
a. ef þolandi er barn yngra en 18 ára.
205. gr.
[Nú hefur sá sem sæta skal refsingu fyrir eitthvert þeirra kynferðisbrota sem að framan greinir áður verið dæmdur sekur um slíkt brot og má þá hækka refsingu svo að bætt sé við hana allt að helmingi hennar.]
Í niðurstöðu dómaranna þriggja, Aðalsteins E. Jónassonar, Ragnheiðar Harðardóttur og Hervarar Þorvaldsdóttur segir: Brot ákærða er alvarlegt og beindist að 14 ára barni. Á hann sér engar málsbætur.
Líkt og rakið var í frétt mbl.is í gær þá kynntist Þórður stúlkunni á Snapchat árið 2016 og í kjölfar fyrstu kynna ákváðu þau að hittast í persónu. Þórður sótti stúlkuna og ók með hana upp í Heiðmörk. Að því er fram kemur í dóminum nýtti hann sér þar yfirburðastöðu sína vegna aldurs- og þroskamunar og neyddi stúlkuna til að hafa munnmök við sig. Þegar hún reyndi að hætta hélt hann höfði hennar niðri. Stúlkan greindi fyrst frá ofbeldinu í viðtali við félagsráðgjafa í byrjun árs 2017.