Landhelgisgæsla Íslands (LHG) fær um mánaðamótin mannlausan dróna til notkunar og verður hann gerður út frá Egilsstaðaflugvelli.
Er um að ræða samstarfsverkefni LHG og Siglingamálastofnunar Evrópu (EMSA) en dróninn verður hér á landi í þrjá mánuði og prófaður við ýmis löggæsluverkefni, leit og björgun auk eftirlits með mengun á hafinu við Íslandsstrendur, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Dróninn, sem er með 15 metra vænghaf, er af gerðinni Hermes 900, vegur rúmt tonn og hefur um 800 kílómetra flugdrægi. Getur hann því auðveldlega flogið að lögsögumörkum Íslands fyrir austan landið og til baka aftur. Þá flýgur dróninn á um 120 kílómetra hraða, er útbúinn afísingarbúnaði og er stjórnað í gegnum gervitungl. Að auki er dróninn búinn myndavélum og radar, en í honum er einnig sérstakur búnaður sem greinir neyðarboð og sendir þau áfram í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.