„Það er ekki búið að taka endanlega ákvörðun. Við höfum óskað eftir fjölda lóða hjá umhverfis- og skipulagsviði borgarinnar því við þurfum að byggja upp húsnæði fyrir á annað hundrað fatlaða einstaklinga á næstu 10 árum,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Kurr er meðal íbúa Seljahverfis í Breiðholti vegna fyrirhugaðrar byggingar íbúðakjarna fyrir fatlað fólk í Hagaseli.
Þegar hafa 800 manns skrifað undir mótmælalista gegn íbúðakjarna fyrir fólk í þjónustuflokki III. Umhverfis- og skipulagsráð auglýsti framkvæmdina og frestur til að senda inn athugasemdir er til 16. apríl.
Regína bendir á brýna þörf eftir lóðum fyrir húsnæði fyrir fatlað fólk í Reykjavík. Hún vísar til laga um þjónustu við fatlaða einstaklinga sem ganga út frá því að þessir einstaklingar búi og starfi í samfélaginu en séu ekki einangraðir eða á stórum stofnunum eins og stefnan var fyrir áratugum. Í dag búa 411 fatlaðir einstaklingar víðs vegar um borgina og það hafi gefið góða raun.
„Við köllum eftir skilningi á stöðu fólksins. Það er mikilvægt að fólk finni að það sé er velkomið,“ segir Regína og bendir á að flestir séu sammála um að það þurfi að hlúa að og bæta hag fólks sem glímir við andlega og/eða líkamlega fötlun.
Rætt hefur verið um hvort staðsetningin sé ekki óheppileg í ljósi þess að frístundaheimili og félagsmiðstöð fyrir unglinga sé í næsta nágrenni og einnig er Rangársel í beinni sjónlínu, en þar eru tveir einstaklingar vistaðir í öryggisvistun. Regína segir að starfsemi öryggisvistunarinnar sé þó aðeins tímabundin lausn og alls sé ekki framtíðarstaðsetning fyrir öryggisvistunina.
Hún segir umræðuna sem skapist í hverfum borgarinnar þegar á að setja á laggirnar heimili fyrir fatlað fólk því miður neikvæða þegar húsnæði fyrir þennan hóp ber á góma. Í því samhengi vísar hún til umræðu þegar verið var að setja á laggirnar heimili fyrir hreyfihamlaða einstaklinga í Austurbrún. Einnig var úrræði fyrir unglinga í Norðlingaholti stöðvað á sínum tíma.
Regína áréttar að fólk sé alls konar og fatlað fólk eigi rétt á að eiga heimili eins og aðrir og það verði líka að virða rétt þeirra til friðhelgi og persónuverndar í tengslum við upplýsingagjöf og samráð. Auglýsingin um deiliskipulagsbreytingu hafi farið í sama farveg og aðrar slíkar breytingar og þegar hafi verið brugðist við gagnrýni um samráðsleysi með fundi með fulltrúum hagsmunaaðila íbúa í Breiðholti sem haldinn var fyrir tveimur vikum.