Vegagerðin segir ómögulegt að segja til um það nákvæmlega hvenær Landeyjahöfn opnast fyrir Herjólf. Vegna spár um óhagstætt veður er útlit fyrir að lengri tíma taki að opna höfnina en vonast var til.
Engu að síður verður unnið að dýpkun svo sem kostur er og á meðan fært er. Ölduhæð og einnig öldulengd er það sem mestu ræður um hvort hægt er að vinna að dýpkun hafnarinnar. Stundum getur veðrið sjálft verið gott en ölduhæð engu að síður mikil og hamlað dýpkunarstörfum.
Dýpkað er í Landeyjahöfn allan sólarhringinn þessa dagana. Björgun er þar með dæluskipið Dísu, dýpkunarprammann Reyni sem er búinn stórri gröfu og efnisflutningaskipið Pétur mikla.