Svör væntanleg frá Solstice

Frá Secret Solstice-hátíðinni í Laugardalnum í fyrra.
Frá Secret Solstice-hátíðinni í Laugardalnum í fyrra. mbl.is/Valli

Von er á svörum frá tónlistarhátíðinni Secret Solstice í dag eða á morgun vegna vanefnda í tengslum við hátíðina sem var haldin síðasta sumar.

Þetta segir Víkingur Heiðar Arnórsson, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, sem vill ekkert tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

Fyrirtækið Live Events hefur tekið við rekstri hátíðarinnar og í samtali við RÚV á laugardag sagði Víkingur Heiðar að málið væri því alveg óviðkomandi. 

Hátíðin skuldar Reykjavíkurborg um tíu milljónir króna vegna þeirrar síðustu sem var haldin síðasta sumar, auk þess sem umboðsaðili bandarísku þungarokkssveitarinnar Slayer hefur stefnt hátíðinni vegna tæplega sextán milljóna króna skuldar.

Víkingur Heiðar Arnórsson, framkvæmdastjóri Secret Solstice.
Víkingur Heiðar Arnórsson, framkvæmdastjóri Secret Solstice. mbl.is/Eggert

Óvissa um hátíðina í sumar

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, segir að leyfi fyrir Secret Solstice hafi verið gefið út árið 2015 til fimm ára. Nýr samningur er þó gerður fyrir hverja hátíð með þeim skilyrðum að forsvarsmenn hennar hafi m.a. staðið skil á greiðslum.

Í drögum að samningi fyrir árið 2019 sem var lagt fyrir í borgarráði í nóvember kemur fram að hátíðin verður haldin ef allt hefur verið gert upp. Þórdís Lóa segir ljóst að borgin mun ekki skrifa undir nýjan samning ef það hefur ekki verið gert.

Hún segir borgina hafa vitað af fréttum um vanefndir vegna innlendra listamanna en kveðst ekki hafa vitað af kröfu Slayer.

„Við erum með þetta uppi á borðum hjá okkur og tökum það samtal,“ segir hún, spurð hvernig brugðist verður við, og bætir við að málið sé í biðstöðu. Tveir og hálfur mánuður er í næstu Solstice-hátíð.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum haft þá yfirlýstu stefnu að Reykjavík sé tónlistar- og menningarborg og höfum gjarnan viljað hjálpa til og liðka fyrir þegar kemur að skemmtilegum tónlistarhátíðum en þær verða að vera í anda alls þess góða sem borgin vill sjá að gerist þar,“ segir Þórdís Lóa og bendir á að drögin að nýja samningnum séu heilmikið breytt frá síðasta samningi. Hátíðin í sumar eigi að vera styttri og eigi meðal annars að höfða til annars aldurshóps.

Spurð hvort málið verði rætt í borgarráði á næsta fundi þess á fimmtudaginn segist Þórdís Lóa gera fastlega ráð fyrir því.

Frá tónleikum Slayer á Secret Solstice í fyrra.
Frá tónleikum Slayer á Secret Solstice í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Bíður eftir svörum frá borginni

Jón Gunnar Ásbjörnsson, lögmaður umboðsaðila Slayer, K2 Agency, segist bíða eftir svörum frá borginni og eftir það verði staðan tekin.

Peningarnir sem hljómsveitin hefur þegar fengið vegna tónleika sinna á Secret Solstice voru greiddir fyrirfram eins og um var samið. Afganginn átti að greiða eftir hátíðina.

Á meðal þeirra sem eiga að stíga á svið á Secret Solstice dagana 21. til 23. júní í sumar eru Robert Plant, Black Eyed Peas, Patti Smith og Pussy Riot. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert