Vilja geta mælt fjölda notenda

Strætó hefur orðið fyrir talsverðri gagnrýni vegna þess að einungis …
Strætó hefur orðið fyrir talsverðri gagnrýni vegna þess að einungis þeir sem eru með appið geti fengið frítt. mbl.is/​Hari

„Við erum komin með yfir 1.000 nýja notendur í appið og erum mjög ánægð með það,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó í samtali við mbl.is, en Strætó býður farþegum frítt í Strætó með appinu í dag vegna spár Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um „gráan dag.“

Það verður hins vegar ekki fyrr en á morgun sem kemur í ljós hve margir nýta sér dagspassann í appinu.

Strætó hefur orðið fyrir talsverðri gagnrýni vegna þess að einungis þeir sem eru með appið geti fengið frítt í Strætó og segir Guðmundur Heiðar gagnrýnina eiga rétt á sér.

Til greina kemur að endurskoða app-fyrirkomulagið

„Við ræddum þetta mikið en við viljum geta mælt hvernig þetta gengur, auk þess sem hluti af markmiðinu er að ná til þeirra sem fara ferða sinna á bíl alla daga, fá þá til að hvíla bílinn og prófa appið. Það er hópurinn sem við viljum ná til með þessu verkefni,“ útskýrir Guðmundur Heiðar en segir það vissulega koma til greina að endurskoða fyrirkomulagið.

„Við erum að prófa þetta í fyrsta skipti og læra á þetta. Það verður líka gaman að fylgjast með hvað pólitíkin gerir, en borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagði til að frítt yrði í Strætó á gráum dögum og var því vísað til umhverfis- og heilbrigðisráðs svo áhuginn er greinilega fyrir hendi.“

Framtakið að þessu sinni sé algerlega á vegum Strætó. „Þetta er ansi dýrt þannig að við getum ekki gert þetta alltaf. Ef við tökum allt kerfið og það er frítt fyrir alla þá er þetta kostnaður upp á um þrjár milljónir króna á dag, en við fáum betri sýn á það þegar við sjáum hve margir nýttu sér dagspassann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert