287 þúsund gestir á aldarafmælishátíð

Hátíðarfundur á Þingvöllum 18. júlí 2018.
Hátíðarfundur á Þingvöllum 18. júlí 2018. mbl.is/​Hari

Alls sóttu 287 þúsund gestir 459 viðburði aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Kostnaður við afmælishátíðina var 260 milljónir króna sem skiptust niður á árin 2017 og 2018, 60 milljónir á árinu 2017 og 200 milljónir á árinu 2018. Fjárhagsáætlun tók mið af fjárheimildum. Þetta kemur fram í skýrslu afmælisnefndar aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.  

Viðburðirnir voru fjölbreyttir og fóru fram um land allt hér á landi og á erlendri grundu. Alls voru haldnir 80 viðburðir erlendis og flestir í Kaupmannahöfn í Danmörku og í Berlín í Þýskalandi. 

Afmælisnefnd gerði skuldbindandi samninga að upphæð 169,4 milljónir króna af 260 milljónum króna sem runnu til verkefnisins. Gerður var skuldbindandi samningur við eftirtalda aðila: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, um sýninguna Lífsblómið – Fullveldi Íslands í 100 ár, að upphæð 34,2 milljónir króna. Saga forlag, vegna hátíðarútgáfu af Íslendingasögunum, 30 milljónir króna. Sögufélag, vegna ritunar og útgáfu bókanna Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918–2018 og Hinir útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918, 31,9 milljónir kr.

Forsvarsmenn verkefna sem valin voru á dagskrá afmælisársins að upphæð 75 milljónir kr. Lækkaðir styrkir og niðurfelld styrkloforð voru 1,7 milljónir kr. Alls námu því samningar vegna verkefna 73,3 milljónum kr. 

Rekstrarkostnaður var um 8,4 milljónir króna, kynningarmál 21,6 milljónir króna og laun og launatengd gjöld um 34,5 milljónir króna. Heildarkostnaður við afmælisárið var því 244,8 milljónir króna um 94% af heildarfjárveitingu til afmælisársins. Þetta kemur fram í skýrslunni.  

Fréttin hefur verið uppfærð.

Í upphaflegu fréttinni mátti ráða að afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands hafi séð um framkvæmd og kostnað við hátíðarfund Alþingis á Þingvöllum 18. júlí síðastliðinn. Það er ekki rétt.

Auk fyrrgreindra verkefna afmælisnefndar var kveðið á um sjö önnur verkefni í þingsályktunartillögu um fullveldisafmælið. Framkvæmd þeirra verkefna var meðal annars á höndum starfsmanna Alþingis, stofnana og ráðuneyta en ekki afmælisnefndarinnar. 

Undirbúningur og framkvæmd hátíðarfundarins á Þingvöllum var í höndum starfsmanna Alþingis sem kostaði tæp­ar 87 millj­ón­ir króna. Þegar heildarkostnaðurinn var birtur á vef Alþingis segir að hann hafi verið nokkuð um­fram áætl­un, en upp­haf­leg kostnaðaráætl­un, sem miðaðist við fram­kvæmd sam­bæri­legs viðburðar fyr­ir 18 árum, hljóðaði upp á 45 millj­ón­ir krónaHelsta ástæðan fyrir framúrkeyrslu var kostnaður við lýsingu og hljóð.   

Einungis hluti verkefnanna var í höndum afmælisnefndarinnar. Bent hefur verið á það auki ekki gegnsæi á kostnað verkefnisins að margir sjái um framkvæmd þeirra.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka