70% þolenda á barnsaldri

Guðrún Jónsdóttir kynnti skýrsluna í morgun.
Guðrún Jónsdóttir kynnti skýrsluna í morgun. mbl.is/​Hari

784 leituðu til Stígamóta í fyrra vegna kynferðisofbeldis af einhverju tagi. Þetta er nokkur fækkun frá fyrra ári, en þá höfðu aldrei fleiri leitað til samtakanna. Nauðgun var algengasta ástæðan, kynferðisleg áreitni sú næstalgengasta og sifjaspell sú þriðja algengasta. Flestir voru á aldrinum 18 - 29 ára og um 10% þeirra, sem leituðu til Stígamóta í fyrsta skipti eru með örorkumat. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ársskýrslu Stígamóta fyrir árið 2018 sem kynnt var í morgun. Af þessum 784 voru 359 að koma í fyrsta skiptið. 

Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta segir að yfirleitt líði talsverður tími frá því að ofbeldi er framið og þangað til fólk leitar sér hjálpar vegna þess, oft líða áratugir þar á milli. Ein af helstu áskorunum Stígamóta væri að stytta þennan tíma á milli brots og leitar eftir aðstoð. „70% af okkar fólki eru fullorðin börn,“ segir Guðrún. „Af þeim sem leituðu til okkar í fyrra voru 112 yngri en tíu ára þegar ofbeldið var fyrst framið.“

Af þessum 359 einstaklingum sem beittir höfðu verið ofbeldið voru 311 konur, 47 karlar og einn var af öðru kyni. Karlar voru tæp 96% ofbeldismanna og konur voru 4%. 

Sjö ofbeldismenn voru tíu ára eða yngri

Rúm 70% þeirra sem leituðu til Stígamóta í fyrsta skiptið í fyrra voru yngri en 18 ára þegar ofbeldið var fyrst framið.  Þegar aldur ofbeldismanna er skoðaður sést að 99 ofbeldismenn af þeim 575 sem um ræðir voru 17 ára eða yngri og þar með á barnsaldri. Þar af voru sjö þeirra 10 ára eða yngri og 20 á aldrinum 11-13 ára. Rúm 82% ofbeldismannanna eru íslenskir.

Þeir einstaklingar, sem metnir eru til örorku, og leituðu til Stígamóta í fyrra, eru oftast með geðsjúkdóm, en aðrar tegundir örorku í þessum hópi eru einhverfa og þroskahömlun. „Það hefur orðið 5% aukning meðal þessa hóps á milli ára,“ segir Guðrún.

Spurð um hvað gæti valdið því segist hún telja að fyrst og fremst sé um að ræða vitundarvakningu, bæði á meðal fatlaðs fólks og aðstandenda þeirra. „Umræðan hefur auðvitað mikið að segja í þessu sambandi, ég held a.m.k. ekki að það sé hægt að fullyrða út frá þessum tölum að kynferðisofbeldi gagnvart fötluðu fólki hafi aukist.“

Heimilið algengasti staðurinn

Algengast var að ofbeldið ætti sér stað á heimilum. Þar af var heimili ofbeldismannsins algengasti staðurinn og sá næstalgengasti var sameiginlegt heimili þolanda og geranda. „Umræðan um að konur og stúlkur eigi að fara varlega þegar þær eru einar á ferli á almannafæri kemur upp í hugann við þessar upplýsingar,“ sagði Guðrún. 

Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er greining á afleiðingum ofbeldisins fyrir brotaþola. Tæp 27% þeirra sem leituðu til Stígamóta hafa gert tilraun til sjálfsvígs. Þá var óhófleg áfengisneysla algeng afleiðing kynferðisofbeldis hjá báðum kynjum, en nokkur kynjamunur var að þessu leyti, t.d. var talsvert algengara meðal karlkyns brotaþola að spila fjárhættuspil eða tölvuleiki í óhófi og sömuleiðis óhófleg íþróttaiðkun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert