Fjármála- og efnahagsráðuneytið fellst ekki á hugmyndir sem Seðlabankinn og fleiri hafa sett fram, um að rekstur og umsýsla væntanlegs Þjóðarsjóðs verði í höndum Seðlabankans.
Þá er ráðuneytið mótfallið því að sjóðurinn verði í vörslu Seðlabankans sem hluti af gjaldeyrisvaraforða bankans, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
„Stærð og handbærni gjaldeyrisforðans lýtur öðrum þjóðhagslegum viðmiðum en eiga við um Þjóðarsjóð, enda hleypur kostnaður við forðann á annan tug milljarða króna árlega þar sem ávöxtun af honum er afar lítil,“ segir á minnisblaði til efnahags- og viðskiptanefndar. Þar svarar ráðuneytið ábendingum og gagnrýni á stjórnarfrumvarpið um Þjóðarsjóð sem á að mæta stórfelldum áföllum.
„Fremur virðist þá koma til álita að skoða hvort draga mætti úr umfangi forðans og kostnaði við hann,“ segir ennfremur á minnisblaðinu.
Fram kemur í ítarlegri umfjöllun ráðuneytisins að verið er að endurmeta samning ráðuneytisins við Seðlabankann þar sem bankanum hefur verið falið að hafa með höndum umsýslu með lánsfjármögnun ríkissjóðs í ljósi reynslunnar. „Þegar hefur verið ákveðið að færa samskipti við lánshæfisfyrirtæki til ráðuneytisins. Á árinu verður einnig til skoðunar að umsýsla með lánsfjármálum ríkissjóðs og upplýsingamiðlun um hana færist aftur til ráðuneytisins eða til stofnunar á vegum þess.“