Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður einkaréttarhafa í máli Vals Lýðssonar í Landsrétti, fer fram á að Valur greiði hverju barna Ragnars Lýðssonar, sem hann varð að bana á síðasta ári, tíu milljónir króna ásamt vöxtum og dráttarvöxtum.
Þeim voru dæmdar þrjár milljónir króna hverju í miskabætur í héraðsdómi.
Sigurður Kári sagði ljóst að Ragnar „varð fyrir hrottalegri atlögu sem dró hann til dauða“. Hann sagði að Valur hefði ekki sýnt neina iðrun gagnvart umbjóðendum sínum, þeir hafi verið reiðubúnir til að leita sátta en hann hafi ekki verið til viðræðu um það. Hann hafi ekki einu sinni beðið þau afsökunar.
Sigurður Kári bætti við að Valur hafi m.a. ekki viljað taka þátt í útfararkostnaði vegna andláts bróður síns og „til að bíta höfuðið af skömminni“ hafi hann lýst yfir skuldajafnaðarkröfu upp á 8 milljónir króna vegna kröfu sem hann telji sig eiga á dánarbú bróður síns. Mótmælti Sigurður þeirri kröfu.
Sigurður sagðir varnir Vals fjarstæðukendar og leyfði hann sér að kalla afstöðu hans „algjöra forherðingu“ sem hafi aukið á miska umbjóðenda hans.
Hann sagði jafnframt að þær þrjár milljónir króna sem börnunum hafi verið dæmdar í héraðsdómi séu allt of lágar bætur.