Efling stéttarfélag fordæmir harðlega þá ákvörðun Icelandair hótel að draga laun af starfsmönnum vegna verkfalla sem þeir tóku ekki þátt í. Efling skorar jafnframt á hótelkeðjuna að leiðrétta mistökin tafarlaust. Hótelkeðjunni ber að bæta starfsmönnum upp launamissi ásamt dráttarvöxtum og veita þeim jafnframt afsökunarbeiðni.
Icelandair hótel tóku ákvörðun um að draga laun af öllum þeim starfsmönnum sem vinna störf sem féllu undir verkfallsaðgerðir stéttarfélaga í síðasta mánuði, óháð því hvort viðkomandi starfsmenn hefðu verið á vakt þá daga sem verkfallsaðgerðirnar stóðu yfir.
„Efling hafnar alfarið tilraunum hótelkeðjunnar til að skjóta sér undan ábyrgð á málinu. Fulltrúi keðjunnar hefur hermt upp á starfsmenn að þeir hafi sagst eiga rétt á greiðslum úr vinnudeilusjóði þótt þeir hafi ekki verið við störf. Slíkt á sér enga stoð í veruleikanum. Efling gaf út ítarlegar skriflegar leiðbeiningar um rétt á greiðslum úr vinnudeilusjóðum og þar kemur slíkt hvergi fram. Skýringar hótelsins standast því enga skoðun og eru yfirklór,“ segir í tilkynningu frá Eflingu.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir þetta svívirðilega framkomu. „Það er verið að hafa laun upp á 12-25 þúsund krónur af fólki sem er á lægstu laununum. Það er hreint með ólíkindum að hótelkeðjan skuli grípa til þessara ráðstafana og við munum bregðast við af fullri hörku.“
Efling mun gera kröfu á Icelandair hótel að greiða starfsmönnunum sem ekki voru á vakt laun, ef ekki verður orðið við henni verður farið með málið fyrir dóm.