Félagsmenn í Grafíu – stéttarfélagi í prent- og miðlunargreinum, kjósa þessa dagana um tillögu um að félagið verði aðili að Rafiðnaðarsambandi Íslands.
Í tilkynningu Grafíu til félagsmanna um atkvæðagreiðsluna segir að meginástæður áforma um aðild að RSÍ séu tvær. „Annars vegar sú mikla fækkun starfa sem hefur orðið í prentiðnaðinum, og því fækkun félagsmanna sem gerir erfiðara að viðhalda þeim réttindum sem stærri verkalýðsfélög bjóða félagsmönnum sínum. Starfandi félagsmenn GRAFÍU eru 721 í dag en heildarfjöldi félagsmanna eru 974. Og hins vegar þau tækifæri sem skapast sem hluti af stærra sambandi til að sinna kjarnaverkefnum fyrir félagsmenn á sama tíma og sótt er fram t.d. með betri þjónustu og betri nýtingu fjármuna.“
Stjórn og trúnaðarráð félagsins hvetja félagsmennina til að styðja aðildina að RSÍ og benda á að með Grafíu innanborðs verði RSÍ sterkasta iðnaðarmannasambandið með um 5.700 greiðandi félagsmenn.