Stéttarfélagið Sameyki kvittar ekki upp á lífskjarasamninginn óbreyttan. Árni Stefán Jónsson, formaður félagsins, segir að margt ágætt sé í samningnum en annað sé ekki nógu gott. Félagið fallist til dæmis ekki á þá útfærslu á styttingu vinnutímans að starfsfólk borgi fyrir hana sjálft með kaffitímum sínum. Það muni ekki gerast.
Hann segir að þar sem páskar nálgist verði farið rólega í komandi samningaviðræður við ríkið og Reykjavíkurborg en síðan sett í hraðgír svo að hægt verði að ljúka vinnunni fyrir sumarfrí.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir að nokkrir samningafundir hafi verið haldnir. Búið sé að fara góða yfirferð yfir öll málin og finna sameiginlega snertifleti. Nú verði haldið áfram og gefið í.
Enn er eftir að ganga frá mörgum kjarasamningum á almenna markaðnum, Samflot iðnaðarmanna fundar með Samtökum atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara á morgun og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja eiga fund með SA í dag.
Formaður Mjólkurfræðingafélagsins segist bíða eftir að vera boðaður á fund hjá ríkissáttasemjara. Einn samningafundur hefur verið haldinn.