Stærð hrygningarstofns makríls hefur verið endurmetin og er hann nú talinn 77% stærri en samkvæmt niðurstöðum Alþjóðahafrannsóknaráðsins í fyrrahaust. Stofninn er ekki lengur metinn undir varúðarmörkum.
Því er líklegt að ráðgjöf ICES um veiðar þessa árs verði endurskoðuð á næstunni, að sögn Guðmundar J. Óskarssonar, fiskifræðings á Hafrannsóknastofnun, sem sæti á í vinnuhópi ICES. Það gerist þó ekki sjálfkrafa heldur þurfa strandríkin að fara fram á það og hafa fulltrúar þeirra rætt við ICES um þessa stöðu og framhaldið, segir Guðmundur í umfjöllun um makrílinn í Mmorgunblaðinu í dag.
Hrygningarstofninn er nú metinn vera 4,16 milljón tonn, en í haust var hann metinn um 2,35 milljón tonn að stærð. Þegar ráðgjöfin lá fyrir í fyrrahaust komu fram talsverðar efasemdir um niðurstöður stofnmatsins. Í kjölfarið var ákveðið að fara í saumana á líkaninu á vettvangi ICES.