Mál gegn fjórum í sparisjóðsmáli felld niður

Sparisjóðurinn AFL á Siglufirði.
Sparisjóðurinn AFL á Siglufirði.

Mál gegn fjórum einstaklingum sem höfðu stöðu sakbornings í fjárdráttarmáli tengdu Sparisjóðinum AFLi á Siglufirði hafa verið felld niður. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við mbl.is. Enn er Magnús Jónasson, fyrrverandi skrifstofustóri sparisjóðsins og fyrrverandi forseti bæjarstjórnar á Siglufirði, með stöðu sakbornings, en meint brot eru talin nema um 100 milljónum króna.

Ólafur segir að málið sé í ákæruferli, en rannsókn þess tók talsvert langan tíma. Í aðgerðum embættis sérstaks saksóknara, sem síðar varð að embætti héraðssaksóknara, í september árið 2015 voru tveir handteknir eftir að upp kom rökstuddur grunur um fjárdráttinn. Var Magnús annar þeirra. Í ágúst 2016, um ári eftir að málið kom upp, var rannsókn á lokastigi, síðar hófst rannsókn á nýjum tilvikum málsins með fleiri yfirheyrslum. Samkvæmt upplýsingum mbl.is óskaði lögmaður Magnúsar einnig ítrekað eftir því að skýrslutökum yfir honum yrði frestað. Skýrsla var þó að lokum tekin af honum og lauk rannsókn málsins.

Sem fyrr segir hefur saksóknari nú fellt niður mál gegn öllum þeim sem höfðu stöðu sakbornings í málinu utan Magnúsar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert