Segja Secret Solstice fara fram sama hvað

Skipuleggjendur Secret Solstice-tónlistarhátíðarinnar í ár segja hátíðina fara fram þrátt …
Skipuleggjendur Secret Solstice-tónlistarhátíðarinnar í ár segja hátíðina fara fram þrátt fyrir ágreining um skuld við borgina frá fyrri rekstraraðilum. mbl.is/Styrmir Kári

Tónlistarhátíðin Secret Solstice verður haldin í sumar, með eða án stuðnings Reykjavíkurborgar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá framkvæmdastjóra hátíðarinnar. Þar segir einnig að það sé ekki rétt að hátíðin skuldi bandarísku rokkhljómsveitinni Slayer fyrir framkomu sína á hátíðinni.

„Umboðsmaður hljómsveitarinnar K2 Agency hefur borið fram reikninga sem fyrri rekstraraðila [sic] hátíðarinnar hefur hafnað. Secret Solstice átti í góðum samskiptum við Slayer síðast og hefur gert upp framkomulaun (artist fee) hljómsveitarinnar,“ segir í yfirlýsingunni. Þar segir einnig að hvorki tónlistarmenn né starfsmenn hafi stefnt hátíðinni vegna vangoldinna launa fyrri hátíða. 

Þá segir að tíu milljóna króna skuld fyrra rekstrarfélags Secret Solstice muni ekki koma í veg fyrir að hátíðin verði haldin í ár. Í tilkynningunni segir að ágreiningur ríki um skuldina og telur Víkingur Heiðar Arnórsson, framkvæmdastjóri Secret Solstice, rétt að Reykjavíkurborg svari fyrir um hvað sá ágreiningur snýst en um bakreikninga er að ræða. Borgin hafi leitað til núverandi rekstraraðila hátíðarinnar vegna skulda fyrri rekstraraðila í leit að lausn. 

„Stærsta og flottasta hátíðin hingað til“

Þór­dís Lóa Þór­halls­dótt­ir, formaður borg­ar­ráðs, sagði í samtali við mbl.is í gær að leyfi fyr­ir Secret Solstice hafi verið gefið út árið 2015 til fimm ára. Nýr samn­ing­ur er þó gerður fyr­ir hverja hátíð með þeim skil­yrðum að for­svars­menn henn­ar hafi m.a. staðið skil á greiðslum.

„Hátíðin verður haldin hvort sem Reykjavíkurborg styður við hana eða ekki og verður stærsta og flottasta hátíðin hingað til enda á eftir að tilkynna síðustu listamennina sem gefa draumatónlistarhátíð sem hefur eitthvað fyrir alla aldurshópa,“ segir í tilkynningunni. Búið sé að bóka alla erlenda tónlistarmenn fyrir hátíðina, semja við hljómsveitirnar og greiða staðfestingargjöld. 

Uppfært kl. 10:11

Í yfirlýsingu Sigurðar G. Guðjónssonar og Gests Gunnarssonar, lögmanna, er annast hagsmunagæslu fyrir Live events ehf. (þess félags sem annast Secret Solstice í sumar) segir að meint skuld við K2 Agency Ltd., vegna tónleika Slayer á hátíðinni sumarið 2016, sé Live Events ehf. alfarið óviðkomandi enda hafi félagið ekki haft aðkomu að fyrri hátíðum, heldur standi félagið að hátíðinni sem haldin verði nú í sumar. 

„Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum ákvað K2 Agency Ltd. að höfða mál á hendur Live Events ehf. fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til að reyna að innheimta meinta skuld. Í ljósi þess að málið er nú til meðferðar hjá dómstólum mun Live Events ehf. ekki reka það í fjölmiðlum heldur verður gripið til varna fyrir dómi. Því skal þó haldið til haga að Live Events ehf. hafnar því alfarið að félagið standi í nokkurri skuld við K2 Agency Ltd., enda hefur félagið hvorki verið í samningssambandi við K2 Agency Ltd. né umbjóðendur þess félags,“ segir í yfirlýsingu lögmannanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert