Magnús Óskarsson, skipaður verjandi Vals Lýðssonar, sýndi Sebastian Kunz réttarmeinafræðingi myndir af hníf og exi við skýrslutöku í Landsrétti í morgun og spurði hvort líklegt sé að þessum vopnum hafi verið beitt er Ragnar Lýðsson lést á bænum Gýgjarhóli II í Bláskógabyggð.
Kunz svaraði því neitandi.
Magnús spurði þá hvort líklegt sé að einhver önnur vopn hafi verið notuð þegar Ragnari var ráðinn bani. Svaraði Kunz þannig að brotaþoli hafi ekki borið nein merki um að hafa hlotið áverka með beittum eða hálfbeittum vopnum, t.d. hníf eða exi. Hann útilokaði ekki að harður hlutur af einhverju tagi hafi verið notaður.
Magnús spurði Kunz um hvað hann hafi fengið greitt fyrir vinnu sína við málið. Dómari sagði að hann þyrfti ekki að svara spurningunni en Kunz sagðist fá greitt mánaðarlega fyrir störf sín en ekki fyrir hverja krufningu. Sagði Magnús það koma sér töluvert á óvart því einhvers staðar í málinu hafi verið reikningur fyrir greiðslu vegna krufningarinnar. Kunz sagði að það gæti ekki staðist.
Magnús spurði Kunz því næst hvernig hann hefði undirbúið sig fyrir skýrslutökuna og kvaðst hann hafa lesið krufningarskýrsluna. Spurður hvort hann hefði talað við einhvern sagðist hann hafa átt samskipti við fulltrúa ríkissaksóknara í tölvupósti þar sem hann fékk að vita um sumar af spurningunum sem átti að spyrja hann.
Áður en Magnús beindi spurningum sínum að Kunz svaraði réttarmeinafræðingurinn spurningum Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara um hvernig dauða Ragnars bar að. Kunz sagði orsök dauða Ragnars vera bráðöndunarskerðingu vegna uppsölu sem orsakaðist af höfuðáverka.
Niðurstöður af blóðferlarannsókn á staðnum svara til þeirra högga sem Ragnari voru veitt, að sögn Kunz. Lá Ragnar á gólfinu þegar hann hlaut fjölda áverkanna sem um getur.
Helgi Magnús spurði Kunz út í hálsbrot sem Ragnar hlaut og svaraði réttarmeinafræðingurinn þannig að það hafi líklega orðið þegar Ragnar var meðvitundarlaus. Bætti hann því við að brotið á hálsliðnum hefði ekki valdið dauða hans.
Helgi spurði einnig hvaða áhrif áfengisdrykkja Ragnars hefði haft á getu hans til að bregðast við ofbeldinu sem honun var beitt, í ljósi þess að uppsölur hafi valdið því að hann kafnaði. Að sögn Kunz mældist áfengismagn hans 2,44 prómill og geta hans til að skila slíku frá sér hafi því verið minni en ella.