„Ég er djúpt snortinn yfir því að hljóta þessi mikilvægu verðlaun fyrir Bach-plötuna mína og þykir vænt um hversu góðar viðtökur hún hefur hlotið hjá almenningi. Á sama tíma finnst mér þetta líka svolítið óraunverulegt, enda er ferlið búið að vera svo langt frá því ég fór að hugsa um þessa plötu,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson sem í London fyrr í kvöld veitti viðtöku tvennum verðlaunum á vegum tónlistartímaritsins BBC, BBC Music Magazine Awards 2019, fyrir hljómplötu sína með verkum eftir Johann Sebastian Bach sem út kom hjá Deutsche Grammophon síðasta haust og hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda. Þetta var 14. árið í röð sem verðlaunin eru veitt.
Víkingur hlaut annars vegar verðlaun fyrir hljóðfæraleiksplötu ársins þar sem dómnefnd tímaritsins valdi tilnefndar plötur en almenningur valdi vinningshafann í netkosningu. Hins vegar hlaut Víkingur aðalverðlaun kvöldsins, sem er plata ársins þvert á flokka, en valið á vinningshafanum var þar í höndum dómnefndar á vegum tónlistartímaritsins BBC. Tilnefnt var í sjö flokkum og aðeins komu til greina plötur sem fengið höfðu fimm stjörnu dóma hjá tímaritinu.
Í tilefni verðlaunanna hafði Oliver Condy, ritstjóri tónlistartímaritsins BBC, þetta um plötu Víkings að segja: „Þeir sem halda að þeir hafi heyrt allt sem vert er að heyra af plötum með píanótónlist Bachs þurfa að endurmeta stöðuna. Vinningsplata Víkings frá Deutsche Grammophon hvílir á herðum píanórisa fyrri tíma og lyftir flutningi á verkum Bachs á æðra og stórkostlegra stig. Þetta er tónlistarsköpun sem hrópar á að hlustað sé á hana.“
Ítarlegt viðtal verður við Víking í Morgunblaðinu á morgun, fimmtudag, þar sem hann ræðir þau verkefni sem fram undan eru hjá honum, en hann er listrænn stjórnandi Reykjavík Midsummer Music-tónlistarhátíðarinnar sem haldin verður í Hörpu dagana 20.-23. júní.
Í viðtalinu kemur fram að Víkingur sé farinn að leggja drög að næstu plötu á vegum Deutsche Grammophon sem hann mun taka upp í Norðurljósum seinna í sumar. „Mér finnst hún á mjög skemmtilegan hátt tengja saman þær tvær plötur sem ég er nú þegar búinn að gera hjá Deutsche Grammophon,“ segir Víkingur og vísar þar í plöturnar með tónlist eftir annars vegar Bach og hins vegar Philip Glass.
„Músíkin á nýju plötunni verður reyndar úr allt öðrum áttum. Þetta er tveggja tónskálda plata, hugsuð sem samtal tveggja stórkostlegra listamanna frá ólíkum tímum, en aldir skilja þá að,“ segir Víkingur og tekur fram að hann geti að svo stöddu því miður ekki upplýst hvaða tónskáld um sé að ræða.
Víkingur ræðir einnig breyttar fjölskylduaðstæður sínar, en þau Halla Oddný Magnúsdóttir eignuðust son í byrjun mánaðar sem er þeirra fyrsta barn. „Halla var sett 22. mars, en hann kom ekki í heiminn fyrr en 3. apríl,“ segir Víkingur og tekur fram að ólíkt tónleikahaldi sem skipulagt sé nokkur ár fram í tímann sé ekki hægt að skipuleggja allt nákvæmlega þegar komi að börnum.
„Til að vera viðstaddur fæðinguna aflýsti ég alls kyns spennandi tónleikum, meðal annars tónleikum með Útvarpshljómsveitinni í París. Sonurinn minnti mig hins vegar rækilega á að hann stjórnar ferðinni. Það var pínu gott á mig, því ég er orðinn svo vanur því að geta skipulagt mig langt fram í tímann en Excel-skjalið virkar ekki lengur,“ segir Víkingur, sem á næstunni lætur sér nægja að skreppa í örstuttar ferðir til útlanda til að spila staka tónleika, enda vill hann vera sem mest heima hjá fjölskyldunni. Viðtalið við hann má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu á morgun.