Ekki nægilegt gagnsæi breytinga

mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Í framlagðri fjármálaáætlun ríkir ekki nægilegt gagnsæi varðandi þær breytingar á tekju- og útgjaldaráðstöfunum sem átt hafa sér stað milli áætlana og þær settar í samhengi við boðuð áform stjórnvalda,“ segir í ábendingum fjármálaráðs, sem fer á gagnrýninn hátt yfir nýja fjármálaáætlun fjármálaráðherra fyrir árin 2020-2024, sem liggur fyrir Alþingi.

Fjármálaráð hefur nú lagt mat sitt á fjármálaáætlunina og skilað ítarlegri álitsgerð til fjárlaganefndar. Kemst ráðið m.a. að þeirri niðurstöðu að opinber útgjöld hafi aukist, en umfang þeirrar aukningar sé álitamál. „Það að staðvirða upphæðir opinberra útgjalda með vísitölu neysluverðs getur gefið aðra mynd en ef aðrar verðvísitölur eru notaðar við samanburð upphæða og þróun þeirra yfir tíma,“ segir í álitsgerðinni, sem um er fjallað í Morgunblaðinu í dag.

Fjármálaráð leggur líka áherslu á að stjórnvöldum beri að sporna gegn því að launahækkanir opinbera geirans leiði launamyndun á vinnumarkaði. „Af þessum sökum er varasamt að staðvirða opinber launaútgjöld með vísitölu sem mælir í raun hækkun launa. Slík staðvirðing er til þess fallin að dylja útgjaldaaukninguna sem mögulega væri knúin af því að stjórnvöld leiddu fremur en fylgdu launaþróuninni sem myndast á vinnumarkaði utan hins opinbera geira. Staðvirðing af þessu tagi fríar stjórnvöld ábyrgð af útgjaldaaukningunni,“ segir í greinargerðinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert