Lögreglan á Suðurlandi handtók þrjá erlenda einstaklinga á tveimur stöðum í Árnessýslu 4. apríl síðastliðinn, en mennirnir eru grunaðir um framleiðslu fíkniefna.
Mennirnir voru síðan úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald daginn eftir, en það rennur út 12. apríl klukkan 16. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.
Tveir hinna handteknu kærðu úrskurð héraðsdóms til Landsréttar, sem hefur staðfest úrskurð héraðsdóms. Málið er á frumstigi rannsóknar og mun lögreglan ekki gefa frekari upplýsingar að svo stöddu.