Önnur nálgun varðandi vaktavinnuhópa

Sonja Ýr Þorbergsdóttir.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir. mbl.is/​Hari

BSRB leggur mikla áherslu á breytingu á starfsumhverfi félagsmanna sinna og styttingu vinnuvikunnar í kjaraviðræðum sínum.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir að skref hafi verið tekin í þá átt á almennum vinnumarkaði en bendir á að stórir vaktavinnuhópar séu innan BSRB og að taka þurfi aðra nálgun hvað þá varðar. Samninganefnd BSRB mun funda með ríkinu á morgun.

„Í grunninn erum við búin að sýna fram á í tilraunaverkefnum að það er hægt að stytta vinnuvikuna á dagvinnustöðum án þess að það bætist í kostnaðinn en það er ljóst að það kostar að einhverju leyti að stytta vinnuvikuna á vaktavinnustöðvum þar sem er sólarhringsmönnun,“ segir Sonja Ýr.

Mjög misjafnar upphæðir 

Spurð segir hún upphæðirnar sem um ræðir mjög misjafnar eftir stofnunum. „Ástæðuna fyrir því að þetta hefur tekist svona vel til í tilraunaverkefnum má líka rekja til þess að það hefur verið farið yfir alla verkferla og tímastjórnun,“ bætir hún við og segir slíkt eiga svolítið eftir að gera á stórum vinnustöðum með starfsfólk í vaktavinnu.

Stærsti vinnustaðurinn er Landspítalinn en Sonja nefnir einnig vinnustaði sem tengjast fötluðum, og sömuleiðis lögreglumenn.

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Sigurður Bogi

Innt eftir því hvort viðræður gætu dregist á langinn vegna þessa segir hún það taka tíma að ræða þetta og útfæra enda sé ljóst að stytta þurfi vinnutíma á sama tíma hjá dagvinnu- og vaktavinnufólki. „Við vitum að vaktavinna hefur slæm áhrif á heilsu fólks,“ segir hún en BSRB hefur krafist þess að vinnuvika fyrir dagvinnufólk verði stytt í 35 stundir á viku og að vinnutími vaktavinnufólks verði 80% af því.

Sonja Ýr segir alla sammála um að grípa þurfi til aðgerða varðandi vaktavinnuhópana. Hún tekur dæmi um sjúkraliða, þar sem endurnýjunin sé ekki eins og hún eigi að vera. Búa þurfi til aðlagandi starfsumhverfi fyrir þá og draga úr veikindafjarveru vegna neikvæðra áhrifa af völdum álags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert