Kópavogsbær hefur áhuga á því að taka að sér byggingu nýs hjúkrunarheimilis við Boðaþing til að flýta framkvæmdum. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri segir í Morgunblaðinu í dag að heilbrigðisráðuneytið sé jákvætt gagnvart hugmyndinni.
Eftir sé að fá fjárhagslegar forsendur á hreint en hann segist bjartsýnn á jákvæða niðurstöðu. Samið var um það fyrir tveimur og hálfu ári að ríkið myndi byggja 64 rýma hjúkrunarheimili við Boðaþing. Ætlunin var að það risi við þjónustuálmu fyrir eldri borgara sem Kópavogsbær á en Hrafnista rekur samtengt hjúkrunarheimili og íbúðir fyrir aldraða á svæðinu.
Verkefnið stöðvaðist í undirbúningsferli vegna deilna um útboð á hönnun nýju byggingarinnar. Nú hefur verið leyst úr því máli fyrir dómstólum. Verði af samningum má búast við að nýtt hjúkrunarheimili komist í gagnið eftir tvö og hálft ár.